Samkvæmt fréttatilkynningu tóku um 1.000 manns þátt í kosningunni, þar sem velja þurfti leikmenn í ellefu stöður á vellinum. Leikmenn sem tilnefndir voru í hverja stöðu fyrir sig þurftu að hafa leikið að minnsta kosti þrjár leiktíðir með FH frá árinu 1964 til dagsins í dag.
Elsti tilnefndi leikmaðurinn var Bergþór Jónsson, fæddur 1935, en yngstir voru þeir Baldur Logi Guðlaugsson og Ólafur Guðmundsson, núverandi leikmaður FH, sem fæddir eru 2002.
Það verður svo að koma í ljós hvort þeir eða aðrir fá sæti í besta FH-liði sögunnar. Það verður kynnt með hátíðlegum hætti um klukkan 13 í Kaplakrika á morgun, áður en leikur FH og Vestra hefst svo klukkan 14.
FH-ingar hafa farið vel af stað í Bestu deildinni í sumar og eru með níu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Vestramenn hafa sömuleiðis byrjað vel sem nýliðar og unnið tvo af fjórum leikjum sínum.
Leikurinn á morgun verður fyrsti leikur sumarsins á Kaplakrikavelli en FH hóf leiktíðina á fjórum útileikjum í deildinni sem og útileik í Mjólkurbikarnum.