Viðskipti innlent

Rekstrar­af­koma Sýnar ekki á­sættan­leg

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Arðsemi Sýnar hf. hefur ekki verið ásættanleg undanfarin ár. Gert er ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á árinu eftir því sem skipulagsbreytingar ná fram að ganga.
Arðsemi Sýnar hf. hefur ekki verið ásættanleg undanfarin ár. Gert er ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á árinu eftir því sem skipulagsbreytingar ná fram að ganga. Vísir/Hanna

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir rekstrarafkomu félagsins ekki ásættanlega. Hins vegar sé gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á síðari hluta ársins og á því næsta, eftir því sem skipulagsbreytingar nái fram að ganga.

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2024 var samþykktur á stjórnarfundi þann 7. maí 2024. Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi námu 5.934 milljónum króna og jukust um 1,3%. Mikill tekjuvöxtur var í auglýsingatekjum sem voru umfram væntingar. Tekjurnar skiptast með eftirfarandi hætti:

  • Fjölmiðlun 2.381 m.kr., hækkun um 10,0% milli ára (1F 2023: 2.165 m.kr.). Leiðrétt fyrir auknum tekjum vegna innkomu Já, er tekjuvöxtur á milli ára 3,6%.
  • Internet 1.147 m.kr., hækkun um 3,4% milli ára (1F 2023: 1.109 m.kr.)
  • Farsími 1.062 m.kr., lækkun um 11,5% milli ára (1F 2023: 1.200 m.kr.)
  • Fastlína 106 m.kr., lækkun um 9,3% á milli ára (1F 2023: 116 m.kr.)
  • Hýsingar- og rekstrarlausnir (Endor) 708 m.kr., hækkun um 0,8% á milli ára (1F 2023: 702 m.kr.)
  • Vörusala 288 m.kr., lækkun um 12,5% á milli ára (1F 2023: 329 m.kr.)
  • Aðrar tekjur 242 m.kr., hækkun um 1,5% á milli ára (1F 2023: 238 m.kr.)

Tapið nam 153 milljónum en mikill vöxtur í auglýsingatekjum

Sterkur tekjuvöxtur var í auglýsingatekjum, en vöxturinn nam 22 prósentum, þar af 51 prósenti í auglýsingatekjum sjónvarps, og er vöxturinn umfram væntingar stjórnenda. 

Lækkun í farsímatekjum um 138 m.kr. skýrist einkum af lækkun í IoT tekjum. Viðsnúningur var í heimatengingum með rúmum 6% vöxt frá fyrra ári en einnig var öflugur vöxtur í tekjum af gestareiki (30%).

  • Tap ársfjórðungsins nam 153 m.kr. (1F 2023: hagnaður 213 m.kr.) og eiginfjárhlutfall var 29,5%.
  • Skipulagsbreytingar: Starfslok gerð við framkvæmdastjóra, deildir sameinaðar og stöðugildum fækkað um 20 á tímabilinu. Sparnaður á ársgrundvelli áætlaður um 380 m.kr., þegar breytingar koma fram að fullu á 4F 2024.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.

„Á fyrsta ársfjórðungi, var ég einstaklega ánægð með sterkan tekjuvöxt í auglýsingatekjum og einnig er ánægjulegt að sjá góðan viðsnúning í heimatengingum. Reikitekjur halda til viðbótar áfram að vaxa. Farsímatekjur lækka hins vegar frá sama tímabili í fyrra, líkt og greint var frá í nýlegri tilkynningu. Rekstrarafkoma félagsins er ekki ásættanleg en hins vegar er gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á síðari hluta ársins og á því næsta, eftir því sem skipulagsbreytingar ná fram að ganga,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Afkoma ársins undir áður útgefnu afkomubili

EBIT afkoma ársins hjá Sýn, fyrir utan hagnað vegna sölu stofnnets, verður undir áður útgefnu afkomubili. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun fyrirtækisins til Kauphallarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×