Íslenski boltinn

Sex­tán ára stelpa skoraði í Bestu eftir stoðsendingu frá einni fimm­tán ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísa Bríet Björnsdóttir og Birgitta Rún Finnbogadóttir eru efnilegar knattspyrnukonur sem hafa báðar fengið alvöru tækifæri hjá Tindastól.
Elísa Bríet Björnsdóttir og Birgitta Rún Finnbogadóttir eru efnilegar knattspyrnukonur sem hafa báðar fengið alvöru tækifæri hjá Tindastól. @tindastollmflkvk/Davíð Már

Táningarnir Elísa Bríet Björnsdóttir og Birgitta Rún Finnbogadóttir bjuggu til mark fyrir Tindastól í Bestu deild kvenna í fótbolta í gær og meðalaldurinn við gerð marksins var því ekki mjög hár.

Tindastóll vann leikinn á móti Fylki 3-0 en Tindastólsliðið þurfti að spila þennan heimaleik á Akureyri vegna slæms ástands á heimavelli sínum á Sauðárkróki. Fyrsta mark leiksins var samvinna milli tveggja mjög ungra leikmanna.

Elísa Bríet skoraði markið eftir stoðsendingu frá Birgittu Rún. Þetta var fyrsta mark Elísu í efstu deild og fyrsta stoðsending Birgittu í efstu deild.

Það þarf heldur ekki að koma á óvart ef við skoðum aldur þessara tveggja efnilegu fótboltastelpna frá Skagaströnd. Áður var sagt að þær væru frá Sauðárkróki en það er ekki rétt.

Elísa Bríet er fædd 5. janúar 2008 og var því aðeins 16 ára, 4 mánaða og 4 daga gömul í gær.

Birgitta Rún er fædd 4. desember 2008 og var því aðeins 15 ára, 5 mánaða og 5 daga gömul í gær.

Meðalaldur við gerð marksins var því undir sextán ár.

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, ákvað að veðja á þessar ungu stelpur í ár en þær hafa báðar byrjað fyrstu fjóra leiki liðsins í Bestu deildinni í sumar.

Þær spiluðu sína fyrstu leiki í efstu deild í fyrrasumar en eru núna komnar í stórt hlutverk í liðinu.

Hér fyrir neðan má sjá þetta mark.

Klippa: Fyrsta mark Elísu Bríetar í efstu deild



Fleiri fréttir

Sjá meira


×