Innlent

Vilja breyta fyrir­komu­lagi við út­hlutun plássa

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Starfsmenn Reykjavíkurborgar ætla að skoða hvort breyta þurfi regluverki við úthlutun plássa í sumarfrístund. Myndirnar eru úr safni, en frístundaheimilið Gulahlíð kemur málinu ekki beint við.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar ætla að skoða hvort breyta þurfi regluverki við úthlutun plássa í sumarfrístund. Myndirnar eru úr safni, en frístundaheimilið Gulahlíð kemur málinu ekki beint við. Vísir/Ívar Fannar/Vilhelm

Starfsmenn Reykjavíkurborgar skoða nú hvort unnt sé að breyta fyrirkomulagi varðandi frístund barna á sumrin. Foreldrar í Reykjavík hafa kallað eftir auknu fjármagni og breyttu fyrirkomulagi við úthlutun plássa. Nú ríki fyrirkomulagið „fyrstur kemur fyrstur fær“ sem þýði að þau sem þurfi mest á plássinu að halda fái ef til vill ekkert pláss, séu þau of sein að sækja um.

Hópur foreldra í Reykjavík vakti athygli á málinu í grein á Vísi þar sem þau sögðu kerfið aðeins geta sinnt um helmingnum af eftirspurninni. Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála hjá skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, tekur undir það að fjármagn vanti í kerfið.

„Sko við náttúrulega vinnum eftir þessum fjárhagsramma sem að okkur er gefinn á hverju ári, og það hefur því miður verið þannig að við önnum ekki eftirspurninni á sumrin, en á veturna þá tökum við við öllum börnum sem koma inn,“ segir Soffía.

Óvíst sé hvort og hvenær meira fjármagn fáist í kerfið.

„Ég sé ekki fyrir mér að það gangi kannski fyrir sumarið í sumar, en það væri óskandi að það myndi leysast fyrir næsta sumar.“

Hún tekur einnig undir með því að fyrirkomulagið við úthlutun plássa sé ekki eins og best verður á kosið.

„Á veturnar eins og ég sagði áðan þá er það þannig að allir komast inn, en auðvitað hefur það líka verið svosem umdeilt, og þar hefur verið biðlisti, en þar er ákveðinn forgangur. Yngstu börnin komast fyrst og börn með sérþarfir, og því er ekki til að dreifa í sumarstarfinu. Mér finnst það bara mjög góð ábending frá þessum foreldrum sem að ég legg til að við rýnum betur í. Þá munum við þurfa breyta regluverki hjá okkur.“

Til standi að skoða breytingar á þessu fyrirkomulagi.

„Við sannarlega tökum það til skoðunar, en það er verkefni sem við breytum ekki með einni hendingu,“ segir Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×