Fótbolti

Þrjú ís­lensk mörk í risasigri Fortuna Sittard

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
María Ólafsdóttir Grós skoraði tvö mörk fyrir Fortuna Sittard í dag.
María Ólafsdóttir Grós skoraði tvö mörk fyrir Fortuna Sittard í dag. Jeroen van den Berg/Soccrates/Getty Images

María Ólafsdóttir Gros og Hildur Antonsdóttir voru báðar á skotskónum er Fortuna Sittard vann vægast sagt öruggan 7-1 útisigur gegn PEC Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Lengi vel leit út fyrir að ekkert mark yrði skorað í fyrri hálfleik, en gestirnir í Sittard náðu loks að brjóta ísinn á 38. mínútu. Liðið bætti svo öðru marki við á 44. mínútu áður en María skoraði þriðja mark liðsins á fyrstu mínútu uppbótartíma.

María var svo aftur á ferðinni á 56. mínútu þegar hún skoraði annað mark sitt og fjórða mark gestanna eftir að heimakonur höfðu minnkað muninn snemma í síðari hálfleik.

Hildur Antonsdóttir gerði svo fimmta mark Sittard tíu mínútum síðar áður en liðið bætti tveimur mörkum til viðbótar við á seinustu tuttugu mínútum leiksins. Niðurstaðan því afar öruggur 7-1 sigur Sittard sem situr í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig, níu stigum meira en Zwolle sem situr í sjötta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×