Kortrijk þurfti að ná í það minnsta jafn mörgum stigum og RWDM út úr lokaumferðinni til að komast hjá því að falla beint niður um deild og koma sér í umspilið, en útlitið var ekki gott fyrir lærisveina Freys eftir að liðið lenti 2-0 undir í fyrri hálfleik.
Isaak Davies minnkaði muninn fyrir Kortrijk snemma í síðari hálfleik, áður en heimamenn í Charleroi endurheimtu tveggja marka forystu sína með marki á 70. mínútu og þar við sat.
Niðurstaðan varð 3-1 sigur Charleroi og ljóst að liðsmenn Kortrijk þurftu að treysta á Íslendingalið Eupen gegn RWDM á sama tíma.
Hvorki Guðlaugur Victor Pálsson né Alfreð Finnbogason voru í leikmannahópu Eupen, sem var þegar fallið niður um deild fyrir leik dagsins. Það kom þó ekki að sök því Eupen vann 2-0 sigur og sá til þess að RWDM endaði með 30 stig, einu stigi minna en Kortrijk sem er á leið í umspil við liðið sem endar í þriðja sæti B-deildarinnar.