Lífið

Hellti sér yfir EBU að lokinni keppni

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bambie hefur talað máli Palestínu í Malmö og var ósátt við framgöngu EBU í keppninni.
Bambie hefur talað máli Palestínu í Malmö og var ósátt við framgöngu EBU í keppninni. Getty

Bambie Thug, sem flutti framlag Írlands í Eurovision, sendi Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) kaldar kveðjur að lokinni keppni í gærkvöldi. Hán segir sambandið hafa brugðist.

Bambie lagði fyrr í vikunni fram kvörtun til EBU vegna ummæla lýsanda keppninnar í Ísrael. Varaði hann sérstaklega við atriðinu, þar sem það innihéldi svartagaldur, vúdúdúkkur og tákn djöfladýrkunar, svo eitthvað sé nefnt. Réttast væri að forða börnum frá sjónvarpsskjánum.

Bambie hefur opinskátt talað máli Palestínu þegar ástandið á Gasa-svæðinu hefur verið til umræðu í kringum keppnina. 

Að loknu úrslitakvöldinu mætti hán á blaðamannafund og var greinilega tilbúið að tala opinskátt um það sem átti sér stað bakvið tjöldin í deilum við ýmsa aðila, sérstaklega EBU.

„Nú þegar ég er frjáls, þá má ég tala um allt, er það ekki?“ spurði Bambie í upphafi fundarins. 

Bambie segist ekki hafa fengið nein viðbrögð frá EBU vegna kvörtunarinnar, sem hafi gert írska hópinn að skotmarki í umræðunni. 

„Sjónvarpsstöðin braut reglur og ég vona að þeim verði ekki leyft að keppa á næsta ári vegna þess. En bakvið tjöldin höfum við verið að leggja mikla pressu og mikla vinnu á okkur til að breyta hlutum og ég er svo stolt af Nemo fyrir að sigra. 

Ég er svo stolt af því að við erum öll í topp 10 sem höfum barist fyrir þessu, bakvið tjöldin. Þetta hefur verið mjög erfitt og ég er mjög stolt af okkur.“

Hán vandar EBU ekki kveðjurnar.

„Ég vil bara segja að við erum Eurovision, EBU er ekki Eurovsion. Fari þau til fjandans. Mér er alveg sama á þessum tímapunkti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.