Fótbolti

AC Milan hleypti Torino inn í Evrópubaráttu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Torino dreymir enn um sæti í Sambandsdeild Evrópu.
Torino dreymir enn um sæti í Sambandsdeild Evrópu. Image Photo Agency/Getty Images

AC Milan mátti þola 3-1 tap er liðið heimsótti Torino í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum heldur Torino Evrópudraumum sínum á lífi.

AC Milan hafði þegar tryggt sér annað sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins og hafði því ekki að miklu að keppa. Torino þurfti hins vegar á sigri að halda til að eiga möguleika á sæti í Sambandsdeild Evrópu.

Duvan Zapata og Ivan Ilic sáu um markaskorun Torino í fyrri hálfleik áður en Ricardo Rodriguez skoraði þriðja mark liðsins strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks.

Ismael Bennacer minnkaðu muninn fyrir AC Milan á 55. mínútu, en það reyndist síðasta mark leiksins og niðurstaðan varð 3-1 sigur Torino.

Torino situr nú í níunda sæti ítölsku deildarinnar með 53 stig fyrir lokaumferðina, einu stigi minna en Fiorentina sem situr í síðasta Evrópusætinu. Fiorentina á þó leik til góða.

AC Milan situr sem fyrr í öðru sæti með 74 stig og getur hvorki komist ofar né fallið neðar í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×