Körfubolti

„Tapaður bolti og Basi­le setur þrist“

Siggeir Ævarsson og Andri Már Eggertsson skrifa
Finnur Freyr, þjálfari Vals
Finnur Freyr, þjálfari Vals Vísir/Anton Brink

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, þarf að undirbúa lið sitt fyrir þriðja oddaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn á jafn mörgum árum eftir dramatískt tap gegn Grindavík í Smáranum í kvöld, 80-78.

„Þetta var svakalega súrt. Vondur tapaður bolti þarna. Náum góðu stoppi, frábær hjálparvörn hjá Hjálmari en gerir sig sekan um slæm mistök og Basile bara refsar okkur.“

Beðinn um að greina hvernig leikurinn þróaðist í fyrri hálfleik tók Finnur vinnuna af leikgreinendum Stöðvar 2 Sport með djúpri greiningu.

„Bara, þróaðist einhvern veginn. Þetta var allt þarna einhvernveginn. Bara hörkuleikur, tvö frábær lið fram og til baka. Þeir gerðu einn góðan hlut betur en við eða við einum mistökum of mikið. Þetta bara datt þannig.“

Aðspurður um hvað skildi að einfaldaði Finnur málin enn frekar.

„Tapaður bolti og Basile setur þrist, það er ekkert meira en það. Auðvitað eru fullt af einhverjum hlutum sem við getum gert betur og þeir hugsa það sama. En í endann er þetta bara fegurðin við þessa íþrótt, hversu stutt er á milli hláturs og gráturs. Ef við hefðum haldið boltanum þarna og verið sterkir hefði þetta kannski farið í einhvern vítaleik en í staðinn setur Basile hann í horninu.“

Finnur var heldur ekki búinn að greina lokasókn Vals í hörgul en viðurkenndi að mögulega hefði hann getað teiknað upp betra kerfi.

„Við vissum að þeir ættu villu að gefa, kerfið kannski ekki nógu gott. Það hefði verið fínt ef þetta hefði verið brot í skoti en ég held að það hafi ekki verið það!“ - sagði Finnur og hló.

Nú bíður Valsmönnum enn einn oddaleikurinn en Finnur sagði að það væri kannski bara viðeigandi að enda þetta tímabil á þann hátt.

„Bara áfram gakk. Búið að vera langt og strangt tímabil og einhvern veginn er þetta rökrétt að þetta fari í fimm leiki en það er ljóst að það lið sem vinnur þann leik verður betri í þeim leik og á titilinn skilið og við þurfum að gera okkur besta í að vera það lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×