Fótbolti

Heimir Hall­gríms þegar búinn að tryggja sam­bandinu 277 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson hefur þjálfað landslið Jamaíku síðan 2022.
Heimir Hallgrímsson hefur þjálfað landslið Jamaíku síðan 2022. Getty/Shaun Clark

Suðurameríkukeppnin í fótbolta, Copa América, fer fram í sumar og við Íslendingar eigum þar flottan fulltrúa.

Heimir Hallgrímsson þjálfar jamaíska landsliðið og kom liðinu í úrslitakeppnina um Suðurameríkutitilinn. Jamaíka tryggði sér farseðilinn þangað með því að komast alla leið í úrslit Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameriku.

Með þessum árangri hefur Heimir þegar tryggt jamaíska knattspyrnusambandinu tvær milljónir dollara eða 277 milljónir íslenskra króna.

Mótshaldarar Copa América í ár hafa nefnilega greint frá því að verðlaunaféð hafi aldrei verið hærra í sögu keppninnar. Í raun tekur það risastórt stökk.

Alls verða greiddar 72 milljónir dollara í verðlaunafé. Allar þjóðir fá tvær milljónir fyrir þátttökuna en síðan verður fjörutíu milljónum skipt á milli þeirra eftir árangri.

Í síðustu Copa América keppni þá voru greiddar 19,5 milljónir dollara fyrir árangur í keppninni. Þetta er því meira en tvöföldun á verðlaunafénu.

Suðurameríkumeistarar Argentínu fengu 6,5 milljónir dollara fyrir sigur sinn í keppninni sumarið 2021 en sigurvegararnir í sumar fá sextán milljónir dollara eða meira en 2,2 milljarða í íslenskum krónum.

Komist Jamaíka alla leið í undanúrslitin þá er sambandið öruggt með fjórar milljónir dollara að auki.

Til þess þarf liðið auðvitað að komast upp úr riðlinum en í honum eru auk Jamaíka lið Mexíkó, Ekvador og Venesúela. Tvö efstu í riðlinum komst í átta liða úrslit. Riðill Jamaíka spilar þá við riðil A en í honum eru Argentína, Perú, Síle og Kanada.

Suðurameríkukeppnin hefst 20. júní næstkomandi og fyrsti leikur Jamaíka er á móti Mexíkó tveimur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×