Erlent

Notaði niðrandi orð um sam­kyn­hneigða karla á lokuðum fundi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Páfi fór fyrir messu á St. Péturstorgi á sunnudag.
Páfi fór fyrir messu á St. Péturstorgi á sunnudag. AP/Gregorio Borgia

Frans páfi er sagður hafa notað lítilsvirðandi orð þegar viðræður stóðu yfir innan kaþólsku kirkjunnar um hvort hleypa ætti samkynhneigðum körlum inn í prestaskóla.

Frá þessu greina miðlar á Ítalíu.

Orðið lét páfi falla í síðustu viku, á lokuðum fundi með biskupum. Umræðuefnið var, eins og fyrr segir, hvort leyfa ætti samkynhneigðum körlum að innritast í skóla fyrir presta en málið hefur verið til umræðu meðal biskupa á Ítalíu.

Frans er sagður hafa ítrekað andstöðu sína á fundinum og sagt að á sama tíma og það væri mikilvægt að kirkjan tæki öllum opnum örmum þá væri hætta á því að samkynhneigðir menn myndu freistast til að lifa tvöföldu lífi.

Sagði hann svo í beinu framhaldi að það væri þegar of mikill „faggaháttur“ (í. frociaggine) innan skólanna.

Ítalskir miðlar hafa haft eftir ónefndum biskupum að páfi hafi notað orðið í gríni en það þykir afar niðrandi og viðstaddir eru sagðir hafa verið hissa á orðanotkuninni. Einn biskup sagði í samtali við Corriere della Sera að það væri óvíst að páfi gerði sér grein fyrir því hversu lítilsvirðandi orðið væri.

Biskuparnir eru sagðir hafa fundað í nóvember til að ræða það að hleypa samkynhneigðum körlum inn í prestanámið, svo lengi sem þeir „iðkuðu“ ekki kynhneigð sína, en páfi er sagður hafa sett sig upp á móti því.

Frans hefur almennt þótt frjálslyndari gagnvart samkynhneigð en forverar hans og meðal annars heimilað prestum að blessa samkynja pör. Hann hefur hins vegar verið skýr með það að samkynhneigð sé ekki ásættanleg á meðal presta og talað um samkynneigð sem tískubólu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×