Lífið

Forsetaáskorunin: Áhugatöframaður og hefur safnað skeljum og eldspýtustokkum

Samúel Karl Ólason skrifar
DSC07997_Original

Vísir stendur fyrir Forsetaáskoruninni 2024, þar sem skorað er á forsetaframbjóðendur að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Katrín Jakobsdóttir er í framboði til forseta Íslands.

Katrín Jakobsdóttir er fædd í Reykjavík 1. febrúar 1976, yngst fjögurra systkina. Hún ólst upp í Álfheimum í Reykjavík og gekk í Langholtsskóla en síðan í Menntaskólann við Sund. Sem barn sat hún ýmist og teiknaði eða las bækur. Í menntaskóla leiddi hún skólafélagið fyrst kvenna í áratug. Tvítug vann hún í Landsbankanum við Sundahöfn og kynntist þá ýmsum íslenskum innflutningsfyrirtækjum en áður vann hún sem bréfberi.

Katrínu var snemma treyst til forystu í húsfélögum, einkum þegar stórframkvæmdir voru á döfinni vegna einstakrar lagni til að fá iðnaðarmenn á sitt band. Í Háskóla Íslands lærði hún frönsku og íslensku og varð að lokum sérfróð um íslenskar glæpasögur um það leyti sem „glæpasagnavorið“ mikla var að hefjast.

Katrín tók sæti á Reykjavíkurlistanum vorið 2002 fyrir hönd Vinstri-grænna. Haustið 2003 var hún kjörin varaformaður hreyfinarinnar og formaður vorið 2ö13. Ráðherra varð hún fyrst á 33 ára afmælisdag sinn og forsætisráðherra 41 árs. Aðeins tveir hafa gegnt því starfi lengur samfellt síðan Ísland varð lýðveldi árið 1944. Katrín er gift Gunnari Sigvaldasyni og eiga þau saman þrjá syni; Jakob, Illuga og Ármann Áka.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi?

Þingvellir eru nú líklega uppáhalds staðurinn minn en mínir uppáhalds staðir eru ansi víða á Íslandi.

Ef þú fengir að ráða, hvaða einu breytingu myndir þú helst vilja gera á forsetaembættinu?

Mér finnst forsetaembættið að stofni til gott embætti sem fólki þykir vænt um. En það má vissulega skýra hlutverkið í stjórnarskrá.

Segjum sem svo að þú tapir kosningunum og ákveðir í kjölfarið að snúa þér að blönduðum bardagalistum, hvaða lag myndir þú spila áður en þú færir inn í átthyrninginn?

Welcome to the Jungle með Guns N‘Roses. Góð hugmynd samt að skella sér í MMA!

Er einhver „samsæriskenning“ sem þú telur vera sanna eða mikið til í?

Nei, ég hef lært það af langri reynslu að oftast er mjög lítið á bak við samsæriskenningar.

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað fer á diskinn og í glasið?

Gott sushi eða lambakjöt er í uppáhaldi. Íslenskt vatn eða hvítvín er svo gott í glasið.

Uppáhalds bíómynd?

Stjörnustríðsmyndirnar eru uppáhald frá æsku og ég er nú ansi hrifin af nýju Dune-myndunum. Svo er ég Hitchcock-aðdáandi.

Hefur þú komist í kast við lögin?

Ekki að ráði en fyrir allmörgum árum var ég stoppuð fyrir að tala í síma undir stýri. Guði sé lof fyrir handfrjálsan búnað.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál sem gæti þótt skrítið?

Ég veit það nú ekki. Ég hef safnað ýmsu, þar á meðal frímerkjum, steinum, gömlum bankabókum, skeljum og eldspýtustokkum. Svo er ég áhugatöframaður. Og ég elska að halda þemaboð, elda eitthvað nýtt og búa til spilunarlista sem endurspeglar þemað. Er skrítið ekki sama og skemmtilegt annars?

Uppáhalds sjónvarpsþættir?

Elska að horfa á Agöthu Christie-þætti og slökkva aðeins á umhverfinu á meðan.

Hver er þín uppáhalds líkamsrækt?

Að fara út að hlaupa.

Saknar þú einhvers frá Covid-árunum?

Allra göngutúranna með drengjunum og Gunnari.

Hver er eftirminnilegasta stundin þegar þú þurftir að stíga út fyrir þægindarammann?

Ég hef flogið í rafmagnsflugvél! Það var algjörlega magnað augnablik.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Er nokkur sæla sakbitin? Time to say goodbye með Söruh Brightman og Andrea Bocelli þykir til dæmis ekki mjög töff hjá einhverjum en mér finnst það geggjað.

Áttu þér draumabíl?

Nei á engan draumabíl. Dreymir aðallega um betri almenningssamgöngur!

Hvernig slappar þú af?

Ég les góða bók eða horfi á einhverja skemmtilega froðu.

Ertu með húðflúr?

Nei. En ef ég fengi mér húðflúr þá væri það YNWA.

Hvað verður fyrst upp á vegg þegar þú sest að á Bessastöðum?

Vá, ég er ekki komin þangað í huganum. Kannski einhver af þeim myndum sem við höfum enn ekki hengt upp hér heima!

Hvaða þjóðarleiðtoga myndir þú helst vilja hitta og hvað yrði það fyrsta sem þú myndir segja?

Ég hef hitt þá nokkra og þeir eru margir mjög ágætir. Mig langar að hitta Klopp sem er nú hálfgerður leiðtogi margra. Ég mundi spyrja hann út í stjórnunarstíl og biðja hann að fara með ræðuna sem hann fer með í hálfleik fyrir liðið.

Kanntu á eitthvað hljóðfæri?

Nei en ég hef mikinn áhuga á tónlist þannig að það er mjög sorglegt (en kannski ekki fyrir aðra en mig).

Hver er uppáhalds tölvuleikurinn þinn?

Tetris er eini tölvuleikurinn sem ég hef náð einhverjum árangri í.

Ef gerð yrði kvikmynd um þig, hver ætti að leika þig?

Skoska leikkonan Laura Fraser.

Ef þú yrðir skipreka á eyðieyju, hvaða einn mótframbjóðanda tækir þú með þér?

Þann sem er líklegastur til að geta smíðað fleka til að komast af eyjunni!

Hefur þú einhverja umdeilda skoðun, sem gæti orðið fréttamál á heimsvísu? Samanber skoðun Guðna Th á pítsuáleggjum.

Ég ætla að viðurkenna það hér að ég er Liverpool aðdáandi (sem er auðvitað ekki umdeild skoðun) en hef laumu-aðdáun á Alex Ferguson. Veit ekki hvort ég verð nú rekin úr Liverpool-klúbbnum!


Tengdar fréttir

Forsetaáskorunin: Hefur aldrei lent í slagsmálum

Vísir stendur fyrir Forsetaáskoruninni 2024, þar sem skorað er á forsetaframbjóðendur að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×