Fótbolti

Langaði meira að spila fyrir Ís­land en fyrir Dan­mörku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í leik með danska nítján ára landsliðnu árið 2022.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í leik með danska nítján ára landsliðnu árið 2022. Getty/Nikola Krstic

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir er í fyrsta sinn í íslenska landsliðshópnum en framundan eru tveir leikir hjá íslenska kvennalandsliðinu á móti Austurríki í undankeppni EM í Sviss sem fer fram sumarið 2025.

Emilía Kiær hefur spilað fyrir yngri landslið Danmerkur en hún var óvænt valin í íslenska landsliðshópinn á dögunum.

Þetta ætti að vera góður liðstyrkur fyrir íslenska liðið endar er Emilía Kiær markahæsti leikmaður dönsku deildarinnar í dag og spilar fyrir toppliðið sem er Nordsjælland. Emilía hefur skorað tíu mörk í deildinni á leiktíðinni.

Emilía Kiær sagði frá því af hverju hún ákvað að spila frekar fyrir Ísland.

„Ég fæddist á Íslandi. Svo flutti ég til Noregs og bjó þar í fjögur ár. Það var út af vinnu foreldra minna en svo flutti ég til baka til Íslands. Ég flutti síðan til Danmerkur fyrir fjórum árum síðan,“ sagði Emilía Kiær í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV.

„Í lokin þurfti ég bara að taka ákvörðun um hvaða land mig langaði til að spila fyrir og þar valdi ég Ísland, sagði Emilía Kiær.

Hvernig var stundin þegar hún frétti af því að hún væri komin í íslenska A-landsliðið?

„Bara æðisleg. Ég var að koma af æfingu þegar hann hringdi í mig,“ sagði Emilía um símtalið frá Þorsteini Halldórssyni landsliðsþjálfara.

„Ég sat í bílnum mínum og var bara brosandi. Ég held að ef einhver hefur labbað fram hjá mér þá hefur hann örugglega pælt í því hvað væri að gerast,“ sagði Emilía Kiær brosandi. Það má sjá viðtalsbrotið hér fyrir ofan. Ef Instagram færslan birtist ekki er gott ráð að endurhlaða fréttina.

Íslensku stelpurnar mæta Austurríki á útivelli á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×