Atvinnulíf

„Katrín Olga, þetta er ein­göngu hálf­tími af þínu lífi“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
„Katrín Olga, þetta er eingöngu hálftími af þínu lífi, koma svo!“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta sem er dótturfyrirtæki Landsneta, við sjálfan sig áður en hún leggur af stað í sín 5 km hlaup. Sem hún stundar frá vori til hausts, enda segist hún ekki nenna að hlaupa í kulda og trekki.
„Katrín Olga, þetta er eingöngu hálftími af þínu lífi, koma svo!“ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta sem er dótturfyrirtæki Landsneta, við sjálfan sig áður en hún leggur af stað í sín 5 km hlaup. Sem hún stundar frá vori til hausts, enda segist hún ekki nenna að hlaupa í kulda og trekki. Vísir/Vilhelm

Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta, mælir með því að allir vinahópar eigi sér sitt lag til að koma sér í gírinn. Í hennar vinkvennahópi er lagið Fernando tekið á góðum stundum og er Katrín ekki frá því að hópurinn hljómi jafnvel betur en sjálf Cher.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Yfirleitt klukkan hálf sjö, liggur þó á bilinu korter yfir sex til sjö.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Tvo virka morgna í viku byrja ég daginn á því að hlaupa 5 km, en það er eingöngu á sumarmánuðum, en hlaupasumarmánuðir mínir eru frá mars til október/nóvember, ég nenni ekki að hlaupa úti í kulda og trekki. Ég tek daginn snemma og tekst að koma mér út með því að segja við sjálfan mig: Katrín Olga, þetta er eingöngu hálftími af þínu lífi, koma svo! 

Hina dagana byrja ég daginn á því að fá mér morgunmat og eina kaffibolla dagsins. Ég er mikil morgunmats manneskja, og gæti ekki án hans verið. Er frekar íhaldsöm með morgunmat og fæ mér ristað gróft súrdeigsbrauð, með osti og banana. 

Ég tók ákvörðun fyrir um það bil tveimur árum síðan að minnka kaffidrykkju niður í einn kaffibolla á dag og því er morgunbollinn alveg einstaklega góður, sýnir það að þegar þú takmarkar lífsins gæði, þá kanntu betur að meta þau, og því er það stundum þannig að þegar ég sofna á kvöldi, þá hlakka ég til að vakna og fá mér kaffibollann minn.

Hvaða lag kemur þér alltaf á dansgólfið?

„ABBA og Sódóma með Sálinni koma mér alltaf á dansgólfið og þó að það sé ekki mesta stuðlagið frá ABBA þá kemur Fernando sterkt inn vegna tengingar við vinkvennahóp minn, sem tekur allaf Fernandó á góðum stundum og okkur finnst við eiginlega vera betri en ábreiðan frá Cher! Mæli sko með því að allir hópar eigi sér sitt lag til koma sér í gírinn. 

Sódóma er lag sem ég og mágur minn Ægir, besti kokkur landsins, megum ekki heyra, þá tökum við snúning, hvar sem við erum!“

Katrín Olga með morgunbollann góða og hennar eina kaffibolla dagsins síðastliðin tvö ár. Í skipulagi segist Katrín enn skrifa niður verkefni á To do lista, sem kannski sé ekki ýkja töff eða tæknivætt en á móti spyr hún hvort sú leið sé ekki ágætis aðferð til að viðhalda skriftinni?Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Í dag vinnum við hjá Elma að innleiðingu viðskiptakerfis til að kom á fót skammtímamarkaði fyrir raforku, í samstarfi við Nord Pool í Noregi. Þegar slíkur markaður verður kominn í virkni, um næstu áramót, þá nýtist orkan mun betur, og það hjálpar til við orkuöryggi, sem var jú stór þáttur í umræðunni í vetur, vegna orkuskorts.

Slíkur markaður mælir ástandið á raforkumarkaðnum; hvort sem næg orka er til staðar eða skortur er á orku, endurspeglast það á markaði Elmu. Auk þess ýtir þessi markaður undir nýsköpun og þróun á raforkumarkaði og er t.d. forsenda fyrir því að hægt sé að bjóða upp á vindorku hér á landi, sem er mikilvæg fyrir orkuskipti, sem og aðra spennandi nýsköpunarmöguleika eins og lífeldsneyti, rafhlöðugeymslur og vetnisframleiðslu.

Mikil þróun á sér stað á raforkumarkaði erlendis þar sem almenningur er orðinn þátttakandi. Við getum til dæmis sett upp sólarsellur á þökum, notað rafhlöðugeymslur úr rafbílum og selt umframorku okkar á markaðnum, sem stuðlar að hringrásarhagkerfi, sjálfbærni og orkuöryggi.

Við höfum þegar innleitt viðskiptakerfi fyrir langtímamarkað raforku í samstarfi við Cropex, króatísku kauphöll raforku. Báðar þessar leiðir auka hagkvæmni, stuðla að nýsköpun, draga úr sóun og bæta orkuöryggi.»

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Ég er ennþá mjög föst í því að skrifa niður verkefni; TO-DO listinn minn. Ég hefur reynt að nota einhver kerfi fyrir skipulagninguna, en enda alltaf á því að skrifa verkefnin á lista dagsins eða vikunnar. 

Verð að viðurkenna að mér finnst ég ekki nógu kúl með þetta, en á móti kemur að ég er að viðhalda því að við höldum í skriftina, er það ekki góð afsökun fyrir sleifarlagi með tæknina?!“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er frekar kvöldsvæf, á veturna freistast ég meira að segja til að fá mér blund yfir sjónvarpinu! En yfirleitt fer ég uppi í rúm um tíu leytið, seinna yfir sumarmánuðina, en ég sofna aldrei án þess að fá mér svefnmeðalið mitt, sem er að lesa góða bók, stundum duga nokkrar blaðsíður, stundum kafli og stundum meira. En þetta er alveg skothelt svefnráð og kemur með þeim ávinningi að lesa mikið og margt skemmtilegt, sem víkkar þig út sem manneskju.“


Tengdar fréttir

„Í dag fæ ég næstum því bara hrós við matarborðið“

Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri hjá Katla Travel og formaður SAF finnst gaman að elda og elskar ítalska eldhúsið og að vinna með villibráð sem hann veiðir sjálfur. Pétur segir börnin sín betur kunna að meta matseldina hans nú en þegar þau voru yngri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×