Fótbolti

Portúgal skoraði fjögur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes kom inn af bekknum og skoraði tvö.
Bruno Fernandes kom inn af bekknum og skoraði tvö. EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES

Portúgal lagði Finnland 4-2 í vináttuleik þjóðanna en sigurliðið er í óðaönn að undirbúa sig fyrir EM í fótbolta sem fram fer í Þýskalandi. Þá gerðu Ítalía og Tyrkland markalaust jafntefli.

Portúgal stillti ekki upp sínu besta liði en liðið fór þó létt með Finna í kvöld. Miðvörðurinn Ruben Días braut ísinn þegar hann stangaði hornspyrnu Vitinha í netið á 17. mínútu. Það var svo komið í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Portúgal fékk vítaspyrnu. Diogo Jota fór á punktinn og skoraði af öryggi, staðan 2-0 í hálfleik.

Varamaðurinn Bruno Fernandes gerði svo út um leikinn þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Teemu Pukki minnkaði muninn á 73. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði hann sitt annað mark og allt í einu var komin spenna í leikinn.

Fernandes var þó ekki á þeim buxunum og skoraði fjórða mark Portúgals á 84. mínútu. Aftur skoraði Bruno eftir sendingu Francisco Conceição. Staðan orðin 4-2 og reyndust það lokatölur.

Portúgal er í F-riðli á EM ásamt Tékklandi, Georgíu og Tyrklandi. Síðastnefnda liðið gerði markalaust jafntefli við Ítalíu í kvöld. Ítalir er í B-riðli ásamt Spáni, Króatíu og Albaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×