Um er að ræða sérstakan stuðning sem aðeins verður greiddur á árinu 2024. Á álagningarseðli skattsins er ábending birt hjá þeim sem eiga möguleika á stuðningnum.
Ekki þarf að sækja sérstaklega um að fá styrkinn, en hann er reiknaður samkvæmt forsendum sem fyrir liggja í skattframtalinu. Þeir sem eiga rétt á styrknum þurfa að tilgreina á þjónustusíðu skattsins inn á hvaða lán skuli greiða. Þetta skal gert á tímabilinu 1.-30. júní, en ef ekkert er valið verður fjárhæðin greidd inn á það lán sem er með hæstu eftirstöðvarnar samkvæmt skattframtali.
Útreikningur
Stofn til útreiknings er 23% af vaxtagjöldum af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Það eru vaxtagjöld í reitum 166 og/eða 87 í kafla 5.1 og 5.2 á skattframtali.
Frá stofninum dragast 0,5% af nettó eign sem er umfram 18.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 28.000.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.
Einnig dragast frá 4% af tekjustofni sem er umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 9.000.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.
Sérstakur vaxtastuðningur getur að hámarki orðið 150.000 kr. hjá einhleypingi, 200.000 kr. hjá einstæðu foreldri og 250.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.
Lágmarksfjárhæð er 5.000 kr. Ef reiknaður vaxtastuðningur er lægri, fellur hann niður.
Hjá þeim sem skattskyldir eru á Íslandi hluta úr ári ákvarðast fjárhæðin í hlutfalli við dvalartíma á Íslandi á árinu 2023.
Sérstakur vaxtastuðningur telst ekki til skattskyldra tekna og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum.
Sjá nánar á heimasíðu Skattsins, og í lögunum sem samþykkt voru á Alþingi 30. apríl.
„Mér líður eins og ég hafi unnið í lottó!“
DV greinir frá því að mörgum hafi liðið eins og þau hafi unnið í lottói, þegar þau fengu þessar óvæntu gleðifréttir. Þá segir Margrét Erla Maack við DV, „200.000 kall!!! Lottóvinningur dagsins! Ég fann þetta ekki í tölvunni en var no problem í símanum.“
Katla Hreiðarsdóttir vakti einnig athygli vina sinna á þessu á Facebook-síðu sinni, og segir að hún og maður hennar hafi verið heppinn. Eiríkur Þór Hafdal skrifar þá athugasemd og segir „Neihh heyrðu. Mér líður eins og ég hafi unnið í lottó haha.“