Enski boltinn

Sádagullið heillar De Bruyne: „Þú ert að tala um ó­trú­legar upp­hæðir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin De Bruyne hefur sex sinnum orðið Englandsmeistari með Manchester City.
Kevin De Bruyne hefur sex sinnum orðið Englandsmeistari með Manchester City. getty/Martin Rickett

Kevin De Bruyne, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, segir að það gæti orðið erfitt að hafna freistandi tilboði frá Sádi-Arabíu.

De Bruyne hefur leikið með City frá 2015 og unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu. Hann verður 33 ára í þessum mánuði og veltir nú framtíðinni fyrir sér.

„Ég á enn ár eftir af samningnum mínum svo ég þarf að hugsa um hvað getur gerst. Elsti sonur minn er átta ára og þekkir ekkert nema England. Hann spyr hversu lengi ég muni spila með City,“ sagði De Bruyne í viðtali við HLN í Belgíu.

De Bruyne fær fjögur hundruð þúsund pund í vikulaun hjá City en gæti þénað enn meira ef hann fer til Sádi-Arabíu að spila eins og svo margir þekktir leikmenn hafa gert undanfarin misseri.

„Þú þarft að vera opinn fyrir öllu á mínum aldri. Þú ert að tala um ótrúlegar upphæðir á því sem gætu verið lokin á mínum ferli. Stundum verðurðu að hugsa um það. Ef ég spila þar í tvö ár þéna ég ótrúlega mikið. Áður þurfti ég að spila fótbolta í fimmtán ár og ég gæti jafnvel ekki náð þeirri upphæð strax,“ sagði De Bruyne.

„Þú þarft að hugsa um hvað þetta gæti þýtt næst. En í augnablikinu hef ég ekki þurft að hugsa út í það.“

De Bruyne og félagar hans í belgíska landsliðinu undanbúa sig nú fyrir EM í Þýskalandi. Belgía er þar í riðli með Slóvakíu, Rúmeníu og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×