Fótbolti

Maddi­son fer ekki með Eng­landi á EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
James Maddison er á leið í sumarfrí.
James Maddison er á leið í sumarfrí. EPA-EFE/NEIL HALL

James Maddison, miðvallarleikmaður Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, verður ekki í flugvélinni þegar enska landsliðið heldur til Þýskalands á Evrópumót karla í knattspyrnu sem þar fer fram frá 19. júní til 14. júlí næstkomandi.

Hinn 27 ára gamli Maddison var hluti af 33 leikmannahópnum sem Gareth Southgate, þjálfari Englands, valdi upphaflega í aðdraganda mótsins en aðeins 26 leikmenn mega vera í hópnum á EM. Þrátt fyrir að spila hálftíma í vináttuleik gegn Bosníu og Hersegóvínu á dögunum er Maddison ekki í hópnum sem fer til Þýskalands.

Maddison, sem spilar aðallega framarlega á miðjunni, var talsvert meiddur á nýafstaðinni leiktíð og tók aðeins þátt í 30 leikjum. Skoraði hann fjögur mörk og gaf níu stoðsendingar.

Miðjumaðurinn er fyrsti leikmaðurinn sem fær að vita að hann fer ekki á EM. Southgate virðist ætla að taka endanlega ákvörðun með aðra leikmenn eftir vináttulandsleik Englands og Íslands sem fram fer annað kvöld, föstudag.

England mætir Íslandi á Wembley-leikvanginum í Lundúnum á morgun, föstudaginn 7. júní. Leikurinn er í opinni dagskrá Stöðar 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 18.15 og leikurinn hálftíma síðar kl. 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×