Viðskipti innlent

Fjórir sér­fræðingar til liðs við Helix

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ingi Rúnar Kristinsson, Almar Daði Björnsson, Kristinn Skæringur Sigurjónsson og Henný Björk Birgirsdóttir hafa hafið störf hjá Helix.
Ingi Rúnar Kristinsson, Almar Daði Björnsson, Kristinn Skæringur Sigurjónsson og Henný Björk Birgirsdóttir hafa hafið störf hjá Helix. Haraldur Jónasson

Ingi Rúnar Kristinsson, Almar Daði Björnsson, Kristinn Skæringur Sigurjónsson og Henný Björk Birgirsdóttir hafa verið ráðin til starfa hjá íslenska heilbrigðistæknifyrirtækinu Helix.

Helix framleiðir og þróar hugbúnaðarlausnir sem styðja við íslenskt heilbrigðis- og velferðarkerfi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Arna Harðardóttir, segir í tilkynningu að með ráðningunum sé þjónusta til notenda efld enn frekar auk þess sem stigið verði fasta til jarðar í sölu- og markaðsmálum.

Ingi Rúnar Kristinsson verður sölustjóri Helix og mun sinna söluáætlunum, samningagerðum og viðskiptatengslum fyrir fyrirtækið. Hann starfaði áður sem sölustjóri hjá Hreyfingu. Ingi útskrifaðist með BSc gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2019 og MSc gráðu í íþróttaverkfræði frá KTH í Stokkhólmi árið 2022.

Almar Daði Björnsson hefur verið ráðinn sem þjónustusérfræðingur hjá Helix og mun hann bera ábyrgð beiðnum sem koma frá viðskiptavinum, ásamt því að taka þátt í innleiðingum hugbúnaðarlausna. Hann starfaði áður sem sérfræðingur á upplýsingatæknideild á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Almar útskrifaðist með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2024.

Kristinn Skæringur Sigurjónsson tekur við sem þjónustusérfræðingur hjá Helix og mun hann sinna þjónustu í kringum samskiptanetið Heklu, ásamt því að veita þjónustu við Sögu sjúkraskrá og lyfjaafgreiðslukerfið Medicor. Hann starfaði áður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu ZOLL Data Systems í Denver, Colorado. Kristinn útskrifaðist með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Wofford College í Suður Karólínu árið 2021.

Henný Björk Birgisdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingsnemi í stafrænni heilbrigðistækni og mun hún taka þátt í innleiðingum á lausnum Helix, ásamt því að vera hluti af teyminu sem þróar smáforritið Iðunni. Síðastliðin sjö ár hefur hún starfað sem hjúkrunarfræðingur á Barnaspítala hringsins ásamt því að vera stundakennari við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Henný Björk útskrifaðist með MSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 og hún stefnir á að útskrifast með MSc gráðu í stafrænni heilbrigðistækni frá Háskólanum í Reykjavík í byrjun næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×