Fótbolti

Þrír í enska hópnum voru í Nice: „Það var sjokk“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Ingvi (t.v.) verður í hópnum í kvöld. Hann fagnaði vel, líkt og aðrir, í Nice 2016.
Arnór Ingvi (t.v.) verður í hópnum í kvöld. Hann fagnaði vel, líkt og aðrir, í Nice 2016. Getty

Þrír standa eftir úr leikmannahópi enska landsliðsins frá frægu tapi liðsins fyrir Íslandi í Nice á EM 2016. Aðrir muna vel eftir tapinu.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Lundúnum

Þetta fræga tap Englands, sem gjarnan var líkt við tap fyrir Coventry, enda íbúafjöldi svipaður í ensku borginni á við Ísland, er einnig á meðal fræknari sigra Íslands. Ef ekki sá fræknasti.

Harry Kane, landsliðsfyrirliði Englands, spilaði leikinn sem markaði endalok stjóratíðar Roy Hodgson með enska liðið. Kyle Walker spilaði leikinn sömuleiðis og þá var John Stones allan tímann á varamannabekknum. Þetta eru einu þrír leikmenn enska liðsins sem eru á leið á EM í Þýskalandi í sumar.

Southgate man vel til þess að hafa horft á leikinn í Nice og átt erfitt kvöld.Vísir/Ívar

„Þetta var erfitt kvöld fyrir enskan fótbolta,“ sagði Southgate í samtali við Stöð 2 Sport í gærkvöld um leikinn 2016. „Það var sjokk,“ sagði Declan Rice, leikmaður enska liðsins, en báðir muna til þess að hafa séð martröð Englands í Nice.

Miklar breytingar hafa orðið frá því að Gareth Southgate tók við liðinu af Hodgson í kjölfar þessa taps. Þá hefur Southgate einnig tekið óvæntar og umdeildar ákvarðanir í liðsvali fyrir komandi mót. Raheem Sterling var í leikmannahópnum í Nice og hefur síðan tekið þátt á HM 2018 og 2022 auk EM 2020, en hann var ekki einu sinni í 32 manna æfingahóp Englands fyrir komandi Evrópumót.

James Maddison og Jack Grealish heltust úr lestinni í gær og eru ekki í 26 manna hópnum sem heldur til Þýskalands.

Líkt og hjá Englendingum eru þrír Íslendingar í leikmannahópnum fyrir leik kvöldsins á Wembley. Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason spiluðu leikinn og Sverrir Ingi Ingason sat á varamannabekknum í Nice.

Leikur Englands og Íslands er klukkan 18:45 í kvöld. Hann verður sýndur í opinni dagskrá beint á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending klukkan 18:15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×