Körfubolti

Grind­víkingar sækja Banda­ríkja­mann norður og Mortensen fram­lengir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jason Gigliotti er genginn til liðs við Grindavík og Daniel Mortensen verður áfram í herbúðum liðsins.
Jason Gigliotti er genginn til liðs við Grindavík og Daniel Mortensen verður áfram í herbúðum liðsins. Samsett

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur tilkynnti í dag að félagið hefði náð samkomulagi við Jason Gigliotti um að hann muni leika með liðinu á komandi leiktíð í Subway-deild karla.

Gigliotti kemur til félagsins frá Þór Akureyri þar sem hann skilaði 21 stigi að meðaltali í leik. Hann var fimmti stigahæsti leikmaður deildarinnar, en einnig sá frákastahæsti með að meðaltali þrettán fráköst í leik.

Gigliotti er 24 ára gamall miðherji sem lék háskólabolta með Michigan Dearborn í þrjú ár áður en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku á Ítalíu áður en hann gekk í raðir Þórs.

Hann er bandarískur að ætt og uppruna, en er með tvöfalt vegafréf, frá Bandaríkjunum og Ungverjalandi.

Gigliotti er þó ekki sá eini sem hefur skrifað undir samning við Grindvíkinga á undanförnum dögum því í gær, fimmtudag, skrifaði Daninn Daniel Mortensen undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Mortensen er aðdáendum Subway-deildarinnar vel kunnugur, enda hefur hann leikið með Þór Þorlákshöfn og Haukum áður en hann gekk í raðir Grindavíkur fyrir síðasta tímabil.

Grindvíkingar hafa því ekki verið lengi að sleikja sárin eftir tap gegn Val í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta og eru nú þegar farnir að styrkja liðið fyrir næsta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×