Handbolti

Börsungar elta Ála­borg í úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emil Nielsen var stókostlegur í marki Barcelona.
Emil Nielsen var stókostlegur í marki Barcelona. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Barcelona tryggði sér í dag sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta er liðið vann öruggan tólf marka sigur gegn Kiel, 30-18.

Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen fór hamförum í marki Börsunga og varði fimmtán skot. Hann endaði því með 47 prósent hlutfallsvörslu og átti stóran þátt í öruggum sigri liðsins.

Barcelona hafði góð tök á leiknum frá upphafi til enda og leiddi með sex mörkum í hálfleik, staðan 15-9. Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og liðið vann að lokum öruggan tólf marka sigur, 30-18.

Barcelona er því á leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mætir danska liðinu Álaborg á morgun. Álaborg sló ríkjandi Evrópumeistara Magdeburg úr leik fyrr í dag.

Magdeburg og Kiel munu því leika um bronsverðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×