Handbolti

Reynir við fyrsta Evrópumeistaratitilinn í áttunda sinn í sínum síðasta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikkel Hansen fær einn lokaséns til að vinna Meistaradeild Evrópu.
Mikkel Hansen fær einn lokaséns til að vinna Meistaradeild Evrópu. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Mikkel Hansen er að flestra mati einn besti handboltamaður sögunnar. Hann er líka einn sá sigursælasti, en honum hefur þó aldrei tekist að vinna stærsta tiltinn sem í boði er fyrir félagslið, Meistaradeild Evrópu.

Hansen, sem verður 37 ára í haust, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í París í sumar. Hann er því sannarlega á síðustu metrunum á ferlinum.

Með félagsliðum sínum hefur Hansen unnið nánast allt sem í boði er. Fjórtan landstitlar og tólf bikarmeistaratitlar er meðal þess sem má telja upp á glæstum ferli dönsku skyttunnar, en þá eru ótaldir þeir titlar sem hann hefur unnið með danska landsliðinu.

Þó er ein keppni sem Hansen hefur aldrei náð að vinna, sjálf Meistaradeild Evrópu. Hann fær þó tækifæri til að bæta úr því í sínum síðasta leik með félagsliði á ferlinum í dag.

Hansen og félagar í Álaborg  tryggðu sér nefnilega í gær sæti í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hansen kemst í úrslit keppninnar, en þetta verður hins vegar í síðasta sinn sem hann tekur þátt í þessum leik.

Alls hefur Hansen farið átta sinnum í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Þrisvar hefur hann þurft að sætta sig við fjórða sætið og þrisvar hefur hann unnið til bronsverðlauna. Tímabilið 2016-2017 fór hann alla leið í úrslit með PSG, en liðið mátti þola ein marks tap gegn makedónska liðinu RK Vardar.

Hansen fær því eina lokatilraun til að klára þennan síðasta stóra titil sem í boði er þegar Álaborg mætir Barcelona í úrslitum Meistaradeildarinnar í dag. Hvort Hansen nái að klára titilinn í sinni áttundu og síðustu ferð í úrslitahelgina verður þó að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×