Körfubolti

Clark ekki valin í lands­liðið: „Þeir vöktu skrímslið“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Clark í leik með Indiana Fever.
Clark í leik með Indiana Fever. vísir/getty

Það vakti mikla athygli um nýliðna helgi að stórstjarnan Caitlin Clark var ekki valin í bandaríska landsliðið fyrir Ólympíuleikana í sumar.

Clark sló eftirminnilega í gegn í háskólaboltanum og var svo valin fyrst í nýliðavali WNBA-deildarinnar. Þar hefur hún verið að fylla hallirnar og breyta leiknum.

Margir hafa gagnrýnt þetta liðsval og kallað það galið á mörgum stigum. Það er líka alveg ljóst að athyglin á liðinu væri að minnsta kosti helmingi meira með Clark innanborðs.

„Ég gleðst með þeim sem voru valdir og mun styðja þær til sigurs. Ég hlakka til að horfa á þær,“ sagði auðmjúk Clark spurð út í liðsvalið.

„Í sannleika sagt eru þetta engin vonbrigði. Þetta gefru mér bara innblástur og hjálpar mér að uppfylla drauminn að komast í landsliðið. Vonandi verð ég með eftir fjögur ár.“

Þjálfari hennar hjá Indiana Fever, Christie Sides, segir að Clark muni sýna öllum að það hafi verið rangt að skilja hana eftir heima. Clark skoraði 30 stig sama dag og liðið var valið.

„Hún sagði við mig að þeir hefði vakið skrímslið sem mér fannst geggjað. Hún er ung og á eftir að fá mörg tækifæri,“ sagði Sides um hina 22 ára gömlu Clark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×