Íbúar í aðildarríkjum Evrópusambandsins kusu til Evrópuþingsins í liðinni viku þar sem hægriflokkar bættu við sig miklu fylgi. Bandalag íhaldsflokka (EPP) fékk 191 þingsæti, bandalag Framfarasinnaðra sósíalista og demókrata (S&D) fékk 135 þingsæti, bandalag Miðju- og frjálslyndra flokka (RE) fékk 83 þingsæti. Bandalag Hægriflokka (ECR) fékk 71 þingsæti, bandalag farhægriflokka (ID) fékk 57 þingsæti, Græningjar fengu 53 og Evrópska vinstrið 35 sæti.

Úrslitin duga hins vegar núverandi meirihluta EPP, S&D og RE til áframhaldandi samstarfs á Evrópuþinginu. Ursula von der Leyen forseti leiðtogaráðsins, sem sækist eftir endurkjöri til annars kjörtímabils, lýsti því yfir í morgun að hún vildi að þetta samstarf héldi áfram. Þá hefur Nicolas Schmidt leiðtogi S&D einnig lýst yfir vilja til að halda samstarfinu áfram.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir að þrátt fyrir mikla hægri sveiflu í kosningunum hafi fylgið leitað til hófsamari hægriflokka fremur en þjóðernis poppúlista. Það stefni allt í að bandalag miðjuflokka haldi.

„Og Ursula von der Leyen hefur ef eitthvað er styrkt stöðu sína. En haldi bandalagið eins og það hefur gert hingað til ætti hún að hljóta útnefninguna svona tiltölulega auðveldlega,“ segir Eiríkur.
Kosningarnar hafa hins vegar afleiðingar í þýskum og frönskum stjórnmálum þar sem stjórnarflokkar fengu slæma útreið í evrópukosningunum. Farhægriflokkum gekk vel og þannig vann Þjóðernisflokkur Marine Le Pen stórsigur og fékk 32 prósent atkvæða. Það er tvöfalt meira fylgi en Endurreisnarflokkur Emmanuels Macron forseta Frakklands hlaut.

Hann brást við úrslitunum strax í morgun með því að leysa upp franska þingið og boða til þingkosninga sem fram fara í tveimur umferðum hinn 30. júní og 7. júlí. En sjálfur á hann eftir um þrjú ár af sínu kjörtímabili sem forseti.
Eiríkur segir það ekki koma á óvart þar sem flokkur Macrons væri nú þegar í minnihluta í franska þinginu. Kjósendur sendu stjórnvöldum heima fyrir oft skilaboð í evrópuþingskosningum. Macron væri að veðja á að Frakkar væru í áfalli eftir þessi úrslit í evrópuþingskosningunum.
„Að einhverju leyti er þetta hræðsluviðbragð. Hann er líka að spila með það kannski sjokk sem sumir Frakkar, svona meginstraums Frakkar, upplifa við þessa niðurstöðu. Hann geti þá sópað til sín einhverjum stuðningi út á það sjokk sem einhverjir Frakkar hafa orðið fyrir. Það virðist vera veðmálið. En nota bene, hann er ekki að hætta sínum eigin stól,“ segir Eiríkur Bergmann.