Lífið

Hefur ekki hug­mynd um hvað tekur nú við

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aron Einar og Kristbjörg hafa haft það gott í Katar undanfarin ár.
Aron Einar og Kristbjörg hafa haft það gott í Katar undanfarin ár. Steina Matt

Kristbjörg Jónasdóttir einkaþjálfari segir marga hafa spurt sig að því hvað taki nú við hjá henni og Aroni Einari Gunnarssyni fótboltamanni nú þegar samningur hans er runninn út hjá Al Arabi. Sannleikurinn sé sá að hún hafi ekki hugmynd og viðurkennir Kristbjörg að hún eigi erfitt með óvissuna.

Þetta kemur fram í pistli Kristbjargar á samfélagsmiðlinum Instagram. Eins og flestir vita hefur Aron Einar verið samningsbundinn hjá katarska liðinu síðan árið 2019. Nú er sá samningur á enda og óljóst hvað tekur við hjá fjölskyldunni.

„Ég hef fengið margar spurningar nýlega um hvað verði með okkur, hvort við verðum áfram í Katar, flytjum til Íslands, flytjum til annars lands og svo framvegis. Stutta svarið er, að ég hef ekki hugmynd,“ skrifar Kristbjörg meðal annars í færslunni.

Hún segir tímann hafa verið frábæran í Katar. Nú taki við biðstaða þar sem koma muni í ljós hvort fleiri spennandi tækifæri dúkki ekki fljótlega upp. Hún og Aron taki ákvörðun um hvað séu næstu skref.

„Í fullri hreinskilni þá líkar mér ekki óvissan, mér líkar ekki að geta ekki skipulagt mig fyrirfram, mér líkar ekki að vita ekki hvort ég komi aftur eftir sumarið til að kveðja vini okkar, pakka dótinu okkar og flytja eða ekki. En þetta er það sem þetta er og við þurfum að fljóta með því sem gerist, sama hvað gerist.“

Hún segir planið í sumar vera að njóta þess að vera saman. Vinna, slaka á, ferðast um Ísland og skapa minningar með börnunum, fjölskyldunni og vinum.

Ef færslan birtist ekki er ráð að endurhlaða síðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×