Körfubolti

Aftur til Milwaukee eftir brott­reksturinn frá Lakers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Darvin Ham er mættur aftur til Milwaukee.
Darvin Ham er mættur aftur til Milwaukee. Patrick McDermott/Getty Images

Darvin Ham er snúinn aftur til Milwaukee Bucks eftir að Los Angeles Lakers lét hann fara eftir tvö ár sem aðalþjálfari liðsins í NBA-deildinni í körfubolta.

Hinn fimmtugi Ham var aðstoðarþjálfari Bucks í fjögur ár áður en hann tók við starfinu hjá Lakers. Eftir að koma liðinu í úrslit Vesturdeildar á sínu fyrsta tímabili þá féll liðið úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í ár. Bæði skiptin féll liðið úr leik gegn Denver Nuggets. Alls stýrði Ham liðinu í 164 leikjum, 90 þeirra unnust en 74 töpuðust.

Hann er nú snúinn aftur til Milwaukee þar sem hann verður að nýju aðstoðarþjálfari en að þessu sinni er hann titlaður sem „helsti aðstoðarþjálfari“ liðsins. Doc Rivers er áfram aðalþjálfari eftir að taka við liðinu á síðustu leiktíð.

NBA-leiktíðinni er ekki enn lokið en úrslitaeinvígi deildarinnar stendur nú yfir. Þar leiðir Boston Celtics 2-0 gegn Dallas Mavericks en næstu tveir leikir fara fram í Dallas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×