Erlent

Skutu við­vörunar­skotum að norður­kóreskum her­mönnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Norðurkóresk (í fjarska) og suðurkóresk landamærastöð við landamæri ríkjanna við Paju í Suður-Kóreu.
Norðurkóresk (í fjarska) og suðurkóresk landamærastöð við landamæri ríkjanna við Paju í Suður-Kóreu. AP/Ahn Young-joon

Suðurkóreskir hermenn skutu viðvörunarskotum að norðurkóreskum hermönnum sem fóru óvart yfir landamærin á sunnudag. Norðanmennirnir hörfuðu strax en sunnanmenn segja að þeir hafi farið yfir landaærin með tæki og tól.

Uppákoman átti sér stað upp úr hádegi á sunnudag, að sögn suðurkóreska hersins. Lítill hópur norðurkóreskra hermanna hafi þá farið yfir landamærin inn á suðurkóreskt yfirráðasvæði. Suðurkóreski herinn segir að norðanmennirnir hafi farið yfir landamærin fyrir mistök, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Fyrir innan er gróðurinn úr sér vaxinn og landamærastikur sjást ekki. Það eru engir slóðar og þeir óðu í gegnum lággróðurinn,“ segir suðurkóreski herinn.

Aukin spenna hefur verið í samskiptum norðurs og suðurs upp á síðkastið. Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sleit öllum viðræðum um friðsamlega sameiningu suðurs og norðurs og sakaði sunnanmenn um andúð á norðanmönnum í desember.

Undanfarið hafa norðanmenn sent hundruð loftbelgja með rusli yfir landamærabæi í suðrinu. Stjórnvöld í Seúl hafa svarað með því að básúna áróðri og popptónlist yfir landamærin með hátölurum. Þá hafa einstaklingar sent loftbelgi með áróðri yfir landamærin.

Systir Kim Jong-un hótaði því að stjórnvöld í Pjongjang gripu til frekari aðgerða linnti áróðursherferð sunnanmanna ekki í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×