Viðskipti innlent

Hrefna og Unnur til Novum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hrefna Þórsdóttir og Unnur Edda Sveinsdóttir hafa gengið til liðs við Novum lögfræðiþjónustu.
Hrefna Þórsdóttir og Unnur Edda Sveinsdóttir hafa gengið til liðs við Novum lögfræðiþjónustu.

Hrefna Þórsdóttir og Unnur Edda Sveinsdóttir hafa gengið til liðs við Novum lögfræðiþjónustu. Alls starfa nú sjö lögmenn undir merkjum Novum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hrefna er lögmaður sem lauk LL.M. gráðu í Evrópurétti frá Stokkhólmsháskóla árið 2013 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2018. Hrefna sérhæfir sig í verktakarétti en einnig í innviðasamningum sveitarfélaga, kaup og sölu byggingarréttar og lóðarréttindum, þar sem hún hefur tæplega tíu ára reynslu. Hún starfaði síðast í lögfræðiteymi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og þar áður á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.

Unnur Edda hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2015. Hún lauk LL.M. gráðu í Evrópurétti frá Stokkhólmsháskóla árið 2010 og í Alþjóðarétti frá Háskólanum í Vínarborg árið 2017. Unnur starfaði síðast sem yfirlögfræðingur hjá fjártæknifyrirtækinu Z2 ehf., sem sérhæfir sig í þróun hugbúnaðar fyrir fjárfestingar í rafmyntum og fjárfestingaráðgjöf. Unnur hefur fjölbreytta reynslu af störfum úr einkageiranum og fyrir hið opinbera, meðal annars Fjármálaeftirlitið og Héraðssaksóknara.

Novum lögfræðiþjónusta er ört vaxandi lögfræðistofa sem hóf starfsemi sína árið 2019. Stofan sinnir alhliða lögfræðiþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki en sérhæfir sig þó í skaðabóta-, vátrygginga-, vinnu- og fasteignarétti.

„Það er einstaklega ánægjulegt að fá Hrefnu og Unni til samstarfs við stofuna á þessum tímapunkti þar sem þekking þeirra og reynsla mun nýtast vel í þeirri þjónustu sem Novum veitir viðskiptavinum sínum,“ segir Ólafur Lúther Einarsson lögmaður og framkvæmdastjóri Novum í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×