Íslenski boltinn

„Ef þú skorar ekki þá áttu ekki skilið að vinna“

Hinrik Wöhler skrifar
Guðni var svekktur með tapið en sagði sitt lið á góðri siglingu. 
Guðni var svekktur með tapið en sagði sitt lið á góðri siglingu.  Vísir/Hulda Margrét

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, þurfti að játa sig sigraðan þegar FH mætti Þór/KA í 8-liða úrslitum í Mjólkurbikar kvenna.

Það var aðeins eitt mark skorað í leiknum og það var Sandra María Jessen sem tryggði Þór/KA farseðilinn í undanúrslit með marki á 48. mínútu.

„Spilamennskan var upp og niður, mér fannst fyrri hálfleikurinn allt í lagi. Hann var taktísk skák milli liðanna, út frá því hvernig liðin lögðu leikinn upp. Við fórum aðeins yfir hlutina í hálfleik en ekki betur en svo að við fengum á okkur mark eftir tvær mínútur í seinni hálfleik. Það er ekki góð byrjun á leiknum,“ sagði Guðni um leikinn í dag.

„Við reyndum í seinni hálfleik og sköpuðum okkur ágætis stöður inn á vellinum en mér fannst engu að síður að það vantaði lokasendinguna á síðasta þriðjung. Við fáum vissulega vítaspyrnu og það dugar oftar en ekki til að koma marki í leikinn en við misnotuðum hana og skoruðum ekki mark í leiknum. Ef þú skorar ekki þá áttu ekki skilið að vinna,“ bætti Guðni við.

FH er á góðri siglingu

Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur en Þór/KA komst yfir skömmu eftir hálfleik. FH fékk tækifæri til að jafna leikinn skömmu síðar en Shelby Money í marki Þór/KA varði spyrnu Andreu Hauksdóttur.

„Þór/KA lagði leikinn vel upp, þær þvinguðu kantmenn okkar til að fara aftar á völlinn og það þýddi að það var ákveðið bit farið þegar við vinnum boltann. Við ætluðum að laga það í hálfleiknum en svo fáum við mark í andlitið og það breytir leiknum. Mörk breyta leikjum og það gerði það í dag,“ sagði Guðni.

Guðni var þó sáttur með varnarleikinn í dag og var frammistaðan talsvert betri en þegar liðin mættust í deildinni í lok apríl en sá leikur endaði með 4-0 sigri Þór/KA.

„Mér fannst Þór/KA ekki vera að skapa sér mikið í 90 mínútur, þær fengu ekki mörg færi á móti okkur. Við töpum 4-0 síðast á móti þeim. FH er á góðri siglingu og við náum að tengja góðar frammistöður leik eftir leik og erum ágætis stað í dag. Nú er bikarinn frá og næsti leikur á laugardag í deild og við ætlum okkur sigur þar,“ sagði Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×