Íslenski boltinn

„Hefði átt að setja þrjú þannig ég er bara ó­sátt með það“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Jasmín Erla Ingadóttir skoraði þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjum Bestu deildarinnar en hefur verið frá í smá tíma. Hún kom sterk inn af bekknum í kvöld og skoraði tvö mörk. 
Jasmín Erla Ingadóttir skoraði þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjum Bestu deildarinnar en hefur verið frá í smá tíma. Hún kom sterk inn af bekknum í kvöld og skoraði tvö mörk.  vísir/Anton

Valur tryggði farseðilinn í undanúrslitin í Mjólkurbikar kvenna í kvöld þegar þær sóttu sex marka sigur á Grindavík á Stakkavíkurvellinum í Safamýrinni.

„Gott að koma og komast áfram í undanúrslit. Það er alltaf helvíti fínt.“ Sagði Jasmín Erla Ingadóttir sóknarmaður Vals eftir sigurinn í kvöld.

Valur leiddi með tveimur mörkum í fyrri hálfleik en mættu svo út í síðari hálfleikinn og settu fjögur í viðbót.

„Það er nú bara mjög oft þannig í leikjum að leikirnir opnast í seinni hálfleik þannig það var ekkert öðruvísi í dag. Kannski voru þær farnar að þreytast og þá er gott að eiga ferska fætur á bekknum.“

Ósátt að hafa ekki sett þrennu

Innkoma Jasmín Erlu var virkilega öflug en hún setti tvö mörk og var svekkt að setja ekki þriðja markið þó svo að Pétur hafi ekki skipt henni inn á framarlega á vellinum.

„Hann [Pétur Pétursson þjálfari Vals] setti mig allavega ekki framarlega svo ég veit ekki hvort að hann hafi ætlast til að ég væri að fara skora en ég hefði átt að setja þrjú þannig ég er bara ósátt með það.“

Jasmín Erla Ingadóttir meiddist í upphafi móts þegar hún fékk höfuðhögg í leik gegn Keflavík í Bestu deild kvenna. Jasmín Erla hefur verið að koma hægt og rólega tilbaka eftir höfuðhöggið og því vert að spyrja hvernig líðan væri.

„Mjög góð. Ég er bara að komast aftur á skrið og mikilvægt að fá mínútur og tikka þeim inn. Ég þarf bara að koma mér aftur í gott stand.“

„Ég hefði viljað fá fleiri mínútur en sjúkraþjálfarinn var ekki til í það. Ég spilaði 45 mínútur á laugardaginn svo það var kannski of stutt á milli leikja til að fara í eitthvað meira.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×