Íslenski boltinn

Hjart­næm stund í Ár­bænum: Gestirnir gáfu sektarsjóðinn er Fylkismenn minntust fallins fé­laga

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fylkismenn og Haukagestir þeirra tóku höndum saman og létu gott af sér leiða í gær.
Fylkismenn og Haukagestir þeirra tóku höndum saman og létu gott af sér leiða í gær. facebook / íþróttafélagið fylkir

Mörg hundruð manna mættu og mörg hundruð þúsund krónur söfnuðust í minningarleik Fylkismannsins Egils Hrafns Gústafssonar í gær.

2. flokkur karla Fylkis fékk Hauka þá í heimsókn. Fyrirliði gestanna færði foreldrum Egils peningagjöf áður en flautað var til leiks en leikmenn Hauka ákváðu að gefa sektarsjóð sinn til þessa fallega málefnis.

Minningarsjóður Egils Hrafns gaf svo Fylki áhorfendabekk að gjöf, sem er merkt Egilsstúka og ber undirskriftina „Elskum og njótum leiksins“ ásamt lyndistáknum geitar og hjarta.

Egilsstúku verður komið fyrir við æfingavöll Fylkis í Árbænum.facebook / íþróttafélagið fylkir

„Þeir sem ekki þekkja til þá er geitarmerkið notað sem G.O.A.T. eða greatest of all time. Félagar hans og hann sjálfur notuðu þetta merki mjög mikið sín á milli. Þegar við sitjum á bekknum ætlum við að elska og njóta leiksins eins og Egill gerði svo eftirminnilega,” skrifar Íþróttafélagið Fylkir á Facebook síðu sinni. 

Að leik loknum var Fylkisliðinu boðið í pizzaveislu þar sem góðar stundir með Agli voru rifjaðar upp.

Egill var Árbæingur og Fylkismaður mikill, sorglega lést hann aðeins 17 ára að aldri þann 25. maí 2023.

Meistaraflokkur Fylkis minntist hans á táknrænan hátt í leik gegn ÍBV síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×