Macron boðaði óvænt til kosninga eftir að hægrijaðarflokkurinn Þjóðfylkingin undir stjórn Marine Le Pen vann verulega á í Evrópuþingskosningum á sunnudag. Hann réttlætti ákvörðun sína um að rjúfa þing og sagði að flokkar sem eru ósammála öfgaöflum ættu að sameinast gegn þeim.
Fjórir vinstriflokkar hafa þegar náð saman um bandalag í kosningunum sem fara fram í tveimur umferðum 30. júní og 7. júlí.
Glundroði ríkir hins vegar innan hægriflokksins Lýðveldissinnanna eftir að Eric Ciotti, leiðtogi flokksins, talaði fyrir bandalagið við Þjóðfylkinguna í trássi við áratugalanga samstöðu meginstraumsflokka um að útiloka öfgaflokka.
Aðrir flokksleiðtogar, sem er andsnúnir bandalagi við öfgahægrið, hafa kallað eftir afsögn Ciotti og boðað neyðarfund í dag. Breska ríkisútvarpið BBC segir að um helmingur grasrótar flokksins styðji engu að síður bandalag til hægri.
„Hann verður ekki lengur forseti Lýðveldissinnanna. Hann verður rekinn, hann hefur ekkert umboð,“ sagði Agnes Evren, öldungadeildarþingmaður flokksins.
Macron liggur sjálfur undir ámæli fyrir að boða til kosninga. Hann sé með því að greiða leið öfgahægrisins til valda. Flokkur hans fékk helmingi færri atkvæði en Þjóðfylkingin í Evrópuþingskosningunum.