Fótbolti

Brjálað stuð og blíða á pæjumótinu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mótið hófst á fimmtudagsmorgun og lýkur seinni partinn í dag. 
Mótið hófst á fimmtudagsmorgun og lýkur seinni partinn í dag.  Vísir/Vilhelm

Árlega Pæjumótið, eða TM mótið, fer fram í Vestmannaeyjum um helgina. Tæplega 1100 stelpur frá 34 félögum keppast um bikarinn en síðdegis í dag kemur í ljós hvaða lið hreppir hnossið. 

Sigríður Inga Kristmannsdóttir mótstjóri TM mótsins segir vel hafa gengið og þrátt fyrir örlítið rok hafi stelpurnar spilað fótbolta í blíðu. Mótið hófst á fimmtudagsmorgunn og verður mótinu slitið seinna í dag. 

„Á fimmtudaginn, þá var pínu rok og það gekk samt allt upp og svo erum við bara búin að fá blíðu,“ segir Sigríður í samtali við Vísi. Mótið hófst á fimmtudagsmorgunn og fara mótslit fram síðar í dag.

„Það eru tæplega ellefu hundruð stelpur að keppa, frá 34 félögum í 120 liðum,“ segir Sigríður Inga. Keppendur séu örlítið fleiri en í fyrra þegar keppt var í 116 liðum. Á pæjumótinu er þó ekki bara spilaður fótbolti, heldur fengu keppendur að spreyta sig í hæfileikakeppni auk þess sem haldin var kvöldvaka í gærkvöldi, þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestu atriðin.

Stelpurnar í Þrótti fóru að spranga.Vísir/Sigurjón

„Og svo kom Prettyboitjokkó. Hann tryllti lýðinn í gærkvöldi. Það var alveg brjálað stuð hjá stelpunum,“ segir Sigríður.

Úrslitaleikir fara fram seinni partinn í dag og þá kemur í ljós hvaða lið vinnur pæjumótið að þessu sinni. Seinna í kvöld siglir fullur Herjólfur af fótboltastelpum heim á leið.

Það er algjör bongóblíða í Eyjum.Vísir/Sigurjón



Fleiri fréttir

Sjá meira


×