Innlent

Guðni snýr aftur í sagn­fræðina

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson mun í haust snúa aftur til starfa sem prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Guðni Th. Jóhannesson mun í haust snúa aftur til starfa sem prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson fráfarandi forseti Íslands mun snúa aftur til starfa við Háskóla Íslands í haust. Þetta kom fram í ræðu Jóns Atla, rektors HÍ, í brautskráningarathöfn skólans í dag.

Jón Atli óskaði nýkjörnum forseta Höllu Tómasdóttur velfarnaðar í starfi og til hamingju með kjörið. „Á sama tíma bjóðum við fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði velkominn aftur til starfa við Háskóla Íslands,“ sagði Jón Atli. Að lokum þakkaði hann Katrínu Jakobsdóttur fyrir stuðning við starf skólans á undanförnum árum.

Guðni Th. Jóhannesson var prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, þegar hann var kjörinn forseti 2016. Eftir hann liggja fræðirit meðal annars um efnahagshrunið 2008, forsetaembættið og þorskastríðin. Þá hefur hann til að mynda ritað um embættistíð Kristjáns Eldjárns og ævisögu Gunnars Thoroddsen.

Þorskastríðin og landhelgismálið hafa verið eitt meginviðfangsefni rannsókna Guðna. Þá sagði hann í fréttum Stöðvar 2 um árið að stefnan væri að halda skrifum um þorskastríðin áfram, og reifa alla söguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×