Sport

EM í sundi: Birgitta skar sig mjög illa á fæti í upp­hitun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgitta Ingólfsdóttir var afar óheppin í morgun.
Birgitta Ingólfsdóttir var afar óheppin í morgun. SSÍ

Þrír Íslendingar syntu á Evrópumeistaramótinu í sundi í morgun. Ein af þeim var Birgitta Ingólfsdóttir sem lenti í óhappi í upphitun.

Símon Elías Statkevicius synti mjög gott 100 metra skriðsund í morgun þegar hann bætti besta tíma sinn í greininni. Símon Elías synti á tímanum 51,51 sek. Gamli tíminn hans 51,67 sek. var síðan á Smáþjóðaleikunum á Möltu í fyrra. Símon syndir næst á föstudaginn þegar hann syndir 50 metra skriðsund.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir synti 50 metra flugsund í morgun þegar hún synti á tímanum 27,99 sek. og varð í 25 sæti. Jóhanna var alveg við sinn besta tíma sem er 27,69 sek. Jóhanna Elín syndir næst á föstudaginn en þá syndir hún 50 metra skriðsund.

Birgitta Ingólfsdóttir synti 100 metra bringusund á tímanum 1:15,34 mín. sem er töluvert frá hennar besta tíma. Hún sýndi þó mikla hörku með því að synda yfir höfuð.

Birgitta varð fyrir því óhappi að skera sig mjög illa undir fæti í upphitun og náði því miður ekki að undirbúa sig sem skyldi. Það blæddi mikið úr sárinu.

Birgitta sýndi af sér mikla hörku þrátt fyrir þetta óhapp og kláraði sitt fyrsta sund á stórmóti, en hún mun vonandi synda 50 metra bringusund á laugardaginn.

Á morgun miðvikudag fáum við svo að sjá Anton Svein McKee synda 200 metra bringusund og Snæfríði Sól Jórunnardóttur synda 200 metra skriðsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×