Þingfundur hófst klukkan 10:30 með óundirbúnum fyrirspurnartíma. Næst á dagskrá er atkvæðagreiðsla um vantrauststillöguna, sem Bergþór lagði fram á þriðjudag. Reikna má með að einhverjir þingmenn nýti tækifærið og geri grein fyrir atkvæði sínu.
Bergþór sagði í samtali við Vísi á þriðjudag að hann hefði lagt vantrauststillöguna fram vegna stjórnsýsluhátta Bjarkeyjar í tengslum við leyfisveitingu Hvals hf. til hvalveiða.
„Þetta er auðvitað samfelld saga sem við þekkjum síðan síðasta sumar, þegar Svandís [Svavarsdóttir] tekur sína ákvörðun. Það má segja að það sé áframhaldandi ólögmæti aðgerða matvælaráðherra Vinstri grænna, sem er allt um lykjandi í þessari nálgun.“
Þingfundinn má sjá í spilaranum hér að neðan:
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu í gær að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af þingflokki hennar, vantrauststillagan verði felld.
Þingmenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna hafa gefið það út að þeir muni allir verja Bjarkeyju vantrausti.