Innlent

Hraunið fer hægt yfir en hraunkælingu haldið á­fram í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn freista þess að hamla framrennsli hraunsins með kælingu og stórum vinnuvélum.
Menn freista þess að hamla framrennsli hraunsins með kælingu og stórum vinnuvélum. Vísir/Arnar

„Hraunkælingin hélt áfram í nótt og vinnuvélarnar héldu áfram í nótt. Og það er bara verið að leita allra leiða til að koma í veg fyrir og hægja á rennslinu.“

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, um aðgerðir næturinnar þar sem unnið var að því að bregðast við þremur hraunspýjum sem teygðu sig yfir varnargarða við Svartsengi.

Eins og stendur vinna sjö manns að hraunkælingu, sem verður haldið áfram fram eftir degi. Þá eru fjöldi annarra á svæðinu, meðal annars á stórum vinnuvélum. Vaktaskipti urðu í morgun þar sem þeir sem unnu í nótt fóru heim og aðrir úthvíldir tóku við.

Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð um klukkan 17 í gær en athygli vekur að fjölmiðlar voru ekki látnir vita sérstaklega. Hjördís segir þetta alls ekki einsdæmi, sérstaklega ekki þegar um sé að ræða langvarandi verkefni eins og nú stendur yfir.

Að sögn Hjördísar hefur hraunkælingin virkað vel. Hraunið fari hægt yfir og engir innviðir í hættu eins og er.

Fundur þeirra sem koma að aðgerðum hófst klukkan 8. 

„Þetta er bara dæmigerður stöðufundur sem við tökum alltaf þegar svona vinna er í gangi. Berum saman bækur og ræðum hvað hefur gengið vel,“ segir Hjördís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×