Upp­gjör: Þór/KA-Fylkir 3-1 | Akur­eyringar blanda sér í topp­bar­áttuna

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Sandra María Jessen hefur byrjað Íslandsmótið af miklum krafti.
Sandra María Jessen hefur byrjað Íslandsmótið af miklum krafti. vísir/Hulda Margrét

Þór/KA lagði Fylki 3-1 í 9. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Þór/KA er nú aðeins þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks á meðan Fylkir er komið í botnsætið. 

Leikurinn var fremur lokaður og það markvarðasta sem gerðist á fyrsta korterinu var að heimakonur fengu fimm hornspyrnur á átta mínútna kafla.

Liðin áttu svo sitthvora marktilraunina, fyrst Abigail Patricia Boyan sem átti gott skot úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem fór hárfínt framhjá marki Þór/KA á 14 mínútum. Tveimur mínútum síðar átti Sandra María Jessen skalla af stuttu færi en Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis handsamaði boltann.

Fyrsta mark leiksins kom á 22. mínútu leiksins þegar Hildur Anna Birgisdóttir átti gott skot fyrir utan teig sem hafnaði í markinu og heimakonur komnar yfir.

Þrátt fyrir að Þór/KA hafi skorað fyrsta markið að þá var krafturinn með gestunum eftir því sem leið á seinni háfleikinn og voru þær ofan á í baráttunni og unnu flesta seinni bolta. Það bar árangur á 38. mínútu, þá skoraði Guðrún Karítas Sigurðardóttir eftir mikið krafs í teignum eftir hornspyrnu og staðan orðin 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.

Heimakonur komu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og náðu að búa til nokkur góð færi og álitlegar stöður. Það var svo á 71. mínútu að Hildur Anna Birgisdóttir tók hornspyrnu sem fór á kollinn á Söndru Maríu Jessen, skallinn fór í slánna og út í teig þar sem Hulda Björg Hannesdóttir var fyrst til að átta sig og skoraði. Staðan orðin 2-1.

Þór/KA bæti svo um betur á 78. mínútu þegar Lara Ivanusa skorað laglegt mark af löngu færi en Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis hefði að öllum líkindum átt að gera betur. Lokatölur 3-1 fyrir heimakonur.

Atvik leiksins

Markið sem Hulda Björg Hannesdóttir skorar og kemur Þór/KA í 2-1. Það varð ákveðin léttir hjá heimakonum við markið og þær náðu að sigla sigrinum heim.

Stjörnur og skúrkar

Hildur Anna Birgisdóttir var góð í liði heimakvenna og þá er alltaf sama ógnin af Söndru Maríu Jessen. Hulda Ósk Jónsdóttir kom af miklum krafti inn í seinni hálfleik og áttu varnarmenn Fylkis í stökkustu vandræðum með hana.

Í liði gestanna áttu Guðrún Karítas Sigurðardóttir góðan leik og sömuleiðis Abigail Patricia Boyan.

Tinna Brá Magnúsdóttir fékk á sig tvö mörk úr langskotum sem ég tel að hún hefði geta gert betur og jafnvel komið í veg fyrir þau bæði.

Stemmning og umgjörð

Það var ekki mjög vel mætt í stúkuna en um 100 manns lögðu leið sína á leikinn. Það heyrðist í trommunum og þá var að vanda boðið upp á hamborgarasölu. Þannig allt í allt ágætis stemmning.

Dómarinn

Brynjar Þór Elvarsson komst ágætlega frá þessu verkefni, mér fannst samt eitthvað vera um vafaatriði og skrítna dóma.

„Fáum á okkur hrikalega ódýr mörk“

„Ég er fyrst og fremst gríðarlega svekktur, mér fannst við eiga eitthvað skilið út úr þessum leik. Þetta var baráttuleikur og við að spila á móti hörku norðan liði, oft á tíðum mátti ekki á milli sjá hvort liðið væri í efri eða neðri hlutanum,“ sagði Gunnar Magnús þjálfari Fylkis eftir 3-1 tap gegn Þór/KA.vísir / anton brink

„Ég er gríðarlega ánægður með vinnuframlagið hjá stelpunum, við áttum okkar færi en að sama skapi fáum við á okkur hrikalega ódýr mörk. Það er náttúrulega klisja en þegar gengur illa að þá er lukkan ekki á þínu bandi og mér finnst það hafa verið svolítið þannig í dag.“

Fylkiskonur ógnuðu fínt í fyrri hálfleik og náðu að pressa Þór/KA ofarlega á vellinum.

„Það eru ákveðnir veikleikar í vörninni hjá Þór/KA sem að við náðum að nýta okkur og hefðum viljað nýta okkur enn betur í seinni hálfleik. Þór/KA voru framan af seinni hálfleiknum sterkari en við og settu aðeins á okkur en við áttum alveg okkar stöður í seinni hálfleik. Þetta þriðja mark það drepur alveg leikinn. Við erum vel inn í leiknum í 2-1 stöðunni þannig þetta er gríðarlega svekkjandi.“

Fylkir vermir botnsæti deildarinnar.

„Það þýðir ekkert að fara að grenja yfir þessu, nú er fyrri umferðin búin og við erum búin að máta okkur við liðin. Nú er bara að þjappa sig saman og halda áfram. Við erum núna að fara að spila við lið sem eru nær okkur í deildinni. Við erum bara spennt að takast á við næstu verkefni.“

Næsta verkefni Fylkis er Þróttur á þriðjudaginn, 25. júní.

„Við þurfum að ná góðri endurheimt, það er stutt á milli leikja og það tekur í að spila á svona grasvelli. Mér finnst reyndar geggjað að komast á svona grasvelli, mér finnst frábært að koma norður og finna graslyktina og svona. Þetta er alvöru fótbolti eins og var í denn,“ sagði Gunnar léttur í lokinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira