Erlent

Úlfar réðust á skokkara í dýralífsgarði

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Getty

36 ára kona liggur nú á gjörgæslu í Frakklandi eftir að úlfar réðust á hana. Konan skokkaði frá húsinu sem hún dvaldi í í Thoiry-garðinum rétt fyrir utan París í dag og endaði fyrir slysni í dýralífsgarði sem á aðeins að vera opinn fyrir bifreiðar. 

Fréttastofa BBC greinir frá þessu. Í dýralífsgarðinum mætti hún þremur úlfum og átti þá fótum sínum fjör að launa. Konan hlaut alvarlega áverka á hálsi, baki og fótum.

Thoiry-garðurinn er einn vinsælasti dýralífsgarður Frakklands og inniheldur um 800 dýr. Dýrin fara frjáls um garðinn á meðan gestir fylgjast með þeim úr öruggri fjarlægð innan úr bifreiðum sínum. 

Ekki liggur fyrir hvers vegna konan fór inn á svæðið sem var merkt öruggt einungis fyrir bílaumferð. Starfsmenn í garðinum komu konunni til bjargar eftir að þau heyrðu öskur hennar og köll. Hún var flutt tafarlaust á spítala í grennd við garðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×