Íslenski boltinn

„Þetta kveikti alla­vega í mér“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Borg Guðjohnsen skoraði annað mark FH.
Arnór Borg Guðjohnsen skoraði annað mark FH. Vísir/Diego

Arnór Borg Guðjohnsen kom inn af varamannabekknum og skoraði annað mark FH er liðið vann 3-1 sigur gegn Fylki í 11. umferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur. Fylkir kom hérna og gerði okkur erfitt fyrir. En það er bara geggjað að fá þessi þrjú stig því það er orðið langt síðan við fengum þrjú stig. Þannig þetta var bara flott,“ sagði Arnór í leikslok.

Arnór kom FH-ingum í 2-1 forystu aðeins fjórum mínútum eftir að Fylkismenn höfðu jafnað leikinn, en þá hafði hann sjálfur aðeins verið inni á vellinum í átta mínútur eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

„Þetta var auðvitað mjög gaman. Maður er búinn að vera að bíða svolítið eftir þessu því þetta eru búnar að vera svolítið erfiðar vikur. Ég var meiddur í síðasta leik þannig það var bara gaman að koma inn á og geta haft áhrif á leikinn.“

Þá hrósaði Arnór markverði FH-liðsins, Sindra Kristni Ólafssyni, fyrir sinn þátt í sigrinum.

„Það var bara gott að Sindri gat komið og bjargað okkur smá. Algjört duðafæri sem þeir fengu og hann varði frábærlega. Mikið hrós á hann.“

Hann segir einnig að jöfnunarmark Fylkis hafi gefið heimamönnum aukinn kraft.

„Já bara hundrað prósent. Þetta var geggjað skot hjá honum, en þetta kveikti allavega í mér og örugglega restinni af liðinu líka,“ sagði Arnór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×