Íslenski boltinn

„Þetta er það leiðin­legasta sem maður gerir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins.
Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins. Vísir/Diego

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, segir að lokatölur í 3-1 tapi gegn FH í kvöld hafi ekki gefið rétta mynd af leik kvöldsins.

„Nei, það er alveg hárrétt hjá þér. Bróðurpartinn af þessum leik fannst mér við vera mjög öflugir. Svo þegar við jöfnum í 1-1 hélt ég að við værum að taka þetta,“ sagði Rúnar í leikslok.

„Við fáum mjög hættuleg færi sem við nýtum ekki nógu vel. Í fyrri hálfleik fannst mér við vera betri aðilinn og við mættum vel gíraðir í seinni hálfleikinn, gerum fjórar skiptingar og jöfnum leikinn. Fáum svo bara á okkur týpískt mark úr föstu leikatriði. Svo hélt leikurinn áfram og þeir skora þriðja markið og þá fjarar þetta út hjá okkur.“

„Heilt yfir var þetta bara ágætis frammistaða. En þetta er bara það leiðinlegasta sem maður gerir, að tapa fótboltaleikjum. Það venst seint.“

Hann segir það hafa verið eins og að fá blauta tusku í andlitið þegar FH-ingar komust yfir á nýjan leik, aðeins fjórum mínútum eftir að hans menn jöfnuðu metin.

„Bara ömurlegt. Síðan kemur þetta þriðja mark bara í kjölsoginu. En það þýðir ekkert að vera að svekkja sig á þessu. Það er bara áfram gakk og næsti leikur.“

Þá segir hann vont að sjá færin sem Fylkismenn misnotuðu í kvöld.

„Sindri varði allavega tvisvar sinnum einn á móti markmanni og gerði það vel, en við eigum auðvitað að klára þessi færi. En það er eins og það er, stundum kláraru þetta og stundum ekki. Svona er þetta sport. Þú þarft að nýta þessa möguleika sem þú færð og reyna að forða þessum boltadjöful frá markinu okkar.“

„En við finnum alltaf eitthvað jákvætt. Við reynum bara að byggja á því, það þýðir ekkert annað. Það þýðir ekkert að fara í eitthvað volæði. Það er stutt í næsta leik sem er á móti KR. Við jöfnum okkur á þessu í dag og síðan þurfum við að einbeita okkur að KR á morgun,“ sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×