Fótbolti

UEFA svarar gagn­rýni vegna seinagangs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höggið sem um er ræðir.
Höggið sem um er ræðir. Shaun Botterill/Getty Images

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur svarað gagnrýni varðandi hversu langan tíma það tók að koma börum og aðstoð til Barnabás Varga eftir að hann meiddist illa í leik Ungverjalands og Skotlands á EM karla í knattspyrnu í gær, sunnudag.

Varga meiddist vægast sagt illa í gær þegar Angus Gunn, markvörður Skotlands, keyrði hann niður innan vítateigs í þann mund sem hann kýldi fyrirgjöf frá marki sínu. Varga steinlá og ljóst var strax að hann væri illa meiddur.

UEFA hefur fengið mikla gagnrýni fyrir hversu lengi það tók að koma réttum aðilum inn á völlinn til að hlúa að honum. Einnig tók það starfsmenn vallarins heila eilífð að koma börum inn á völlinn svo hægt væri að bera Varga af velli.

Í yfirlýsingu UEFA segir að það hafi tekið rétta viðbragðsaðila innan við 15 sekúndur að komast inn á völlinn. Sjúkrateymið beið á hliðarlínunni, eins og segir til um þegar kemur að atvikum sem þessum. Það hafi svo komið inn á völlinn um leið og beðið var um að farið yrði með leikmanninn upp á sjúkrahús.

Einnig segir í yfirlýsingunni að öll framkvæmd viðbragðsaðila hafi verið eftir regluverki UEFA og það hafi engin töf orðið á þeirri aðstoð sem Varga fékk inn á vellinum eða þá varðandi hversu fljótt hann hafi verið sendur á sjúkrahús.

Hinn 29 ára gamli Varga rotaðist við höggið, fékk heilahristing ásamt því sem hann braut bein í fleirtölu. Hann mun fara í aðgerð síðar í dag segir í frétt Daily Mail.

Varga steinlá eftir þetta högg.Catherine Ivill/Getty Images

Tengdar fréttir

Varga kinnbeinsbrotinn en líðan hans stöðug

Óhugnalegt atvik átti sér stað í leik Ungverjalands og Skotlands fyrr í kvöld þegar Barnabas Varga lenti í harkalegu samstuði við Angus Gunn, markvörð Skotlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×