Fótbolti

„Fáum að æfa og spila eins og at­vinnu­menn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir með treyju Kristianstad merkta 2024 því samningur hennar gildir út árið 2024.
Hlín Eiríksdóttir með treyju Kristianstad merkta 2024 því samningur hennar gildir út árið 2024. kdff.nu

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir hefur farið á kostum með liði sínu Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í sumar. Hún segist vera á réttum stað á réttum tíma. Stefán Árni Pálsson tekur við.

Kristianstad vann þá 3-1 sigur á Linköping um helgina en þetta var annar sigur liðsins röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Hlín skoraði tvö mörk á fyrstu átta mínútum leiksins en það fyrra kom á fimmtu mínútu eftir stoðsendingu frá löndu hennar Kötlu Tryggvadóttur.

„Hér er ég í þannig hlutverki að það er ætlast til af mér að ég skili mörkum og stoðsendingum. Allir í liðinu eru að skila sínum hlutverkum og þá fylgir að mér gengur mjög vel,“ segir Hlín sem hefur nú skorað sex mörk á tímabilinu og gefið þrjár stoðsendinga. Hlín gekk til liðs við Kristianstad á síðasta ári en var áður hjá Piteå frá árinu 2021.

„Ég fílaði mig mjög vel hjá Piteå líka en þetta var bara skref fram á við fótboltalega séð. Þetta er allt annar fótbolti sem við spilum, allt aðrar áherslur og miklu meiri sóknarleikur. Ég myndi segja að ég njóti mín betur sem leikmaður hérna.“

Liðið er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar. Hún segir að umgjörðin í kringum leikina í deildinni sé flott en fjöldi áhorfenda mætti vera fleiri.

„Ég myndi ekkert endilega segja að áhorfendatölurnar hjá okkur sé eitthvað svakalegar en umgjörðin er flott og við fáum að æfa og spila eins og atvinnumenn.“

Rætt var við Hlín í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi og má sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×