Menning

Magnús Geir endur­ráðinn þjóð­leik­hús­stjóri

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
leikhus
Þjóðleikhúsið

Magnús Geir Þórðarson hefur verið endurráðinn í stöðu Þjóðleikhússtjóra og mun því áfram halda um stjórnartauma leikhússins til ársins 2030. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra segir að hann „hafi reynst farsæll og öflugur þjóðleikhússtjóri“ og að starfsemi Þjóðleikhússins sé með miklum blóma um þessar mundir. Formaður Þjóðleikhúsráðs segir að Magnús kunni að láta Þjóðleikhúsið rísa undir nafni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu, og á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.. Þar segir að mikill meðbyr hafi verið með starfsemi Þjóðleikkhússins undanfarin misseri, og að áhorfendur hafi flykkst í leikhúsið. Frá árinu 2020 hafi stóraukin áhersla verið lögð á frumsköpun og íslenska leikritun í Þjóðleikhúsinu á sama tíma og virtir erlendir leikhúslistamenn í fremstu röð hafa unnið með leikhúsinu.

Sýningar leikhússins hafi sópað að sér verðlaunum á tímabilinu, og þetta vor hafi verið með þeim aðsóknarmestu í sögu Þjóðleikhússins.

Rekstur leikhússins verið með miklum blóma

„Magnús Geir tók við sem þjóðleikhússtjóri í janúar 2020 og hafði því verið í starfi í tvo mánuði þegar Covid-heimsfaraldurinn skall á með öllum þeim áskorunum sem fylgdu. Þá kom vel í ljós hve vandaður stjórnandi hann er og hefur Magnús Geir reynst farsæll og öflugur þjóðleikhússtjóri sem bæði er vel læs á list og rekstur en starfsemi Þjóðleikhússins er með miklum blóma um þessar mundir,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Magnús Geir hefur sýnt það að hann kann að láta leikhúsið brúa bilið milli hins vinsæla og hins kröfuharða, milli klassískra verka og nýsköpunar, íslenskra verka og erlendra, svo Þjóðleikhúsið rísi undir nafni. Mér finnst því fara vel á því að hann fái tækifæri til að halda starfi sínu áfram“ segir Halldór Guðmundsson, formaður þjóðleikhúsráðs.

Stoltur og fullur þakklætis

„Ég er fullur þakklætis fyrir það traust sem ráðherra og þjóðleikhúsráð sýna mér á þessum tímamótum. Ég er stoltur af stöðu Þjóðleikhússins, einstökum starfsmannahópi og þeim ótal mögnuðu sýningum sem hafa hrifið leikhúsgesti á undanförnum árum. Ég hlakka til að halda áfram í þessum einstaka töfraheimi með mínu frábæra samstarfsfólki. Við eigum skemmtileg og gefandi ár framundan,” segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.