Erlent

Refsi­vert að ganga í hjóna­band með barni í Síerra Leóne

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna Barnaheilla, ásamt stúlkum í bænum Kasseh í Síerra Leóne.
Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna Barnaheilla, ásamt stúlkum í bænum Kasseh í Síerra Leóne. Barnaheill

Barnahjónabönd voru nýlega gerð refsiverð í Sierra Leone. Markar þetta mikil tímamót þar sem í landinu er ein hæsta tíðni barnahjónabanda í heiminum. Fjörutíu prósent stúlkna undir átján ára aldri hafa verið neyddar í hjónaband í landinu. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynnngu frá Barnaheill – Save the Children. Samtökin og stúlkur í Síerra Leóne hafa staðið fyrir herferð til að þrýsta á stjórnvöld að lögfesta bann við barnahjónaböndum og nú hefur frumvarp þess efnis verið samþykkt. 

Með samþykkt á frumvarpinu er refsivert fyrir fullorðinn einstakling að ganga í hjónaband eða vera í sambandi með barni undir 18 ára aldri. Með nýjum lögum opnast tækifæri fyrir stúlkur til að mennta sig. Einnig munu ný lög leiða til þess að tíðni stúlkna sem eignast ungar barn lækki, en um þriðjungur stúlkna þar í landi verða barnshafandi fyrir 18 ára aldur, að því er segir í tilkynningunni.

Tótla I. Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla og Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna hjá samtökunum eru staddar í Síerra Leóne, þar sem frumvarpinu er fagnað. 

„Þetta er mikill sigur fyrir tæpar fjórar milljónir barna í Síerra Leóne. Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna nýjum lögum í landinu en við vinnum í tíu þorpum í Pujehun héraði í Síerra Leóne að vernd gegn ofbeldi á börnum, sér í lagi kynbundnu- og kynferðisofbeldi,“ segir Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna hjá Barnaheillum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×