Erlent

Smellti rembingskossi á eigin­konuna við heim­komuna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, faðmar eiginkonuna Stellu við komuna til Ástralíu.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, faðmar eiginkonuna Stellu við komuna til Ástralíu. AP/Rick Rycroft

Julian Assange er kominn til Ástralíu, sem frjáls maður í fyrsta sinn í fjórtán ár. Assange undirritaði í nótt samkomulag vegna dómssáttar sinnar þar sem hann játaði að hafa brotið njósnalög. Við komuna þakkaði hann forsætisráðherra Ástralíu fyrir að bjarga lífi sínu. Þingmaður Pírata og fulltrúi á Evrópuráðsþinginu segir mikið fagnaðarefni að Assange sé kominn heim, en á sama tíma sé umhugsunarefni að hann hafi neyðst til að játa brot á njósnalögum.

Viðstaddir fögnuðu vel og innilega þegar Julian Assange steig út úr einkaþotunni á flugvellinum í Canberra í Ástralíu rétt fyrir klukkan tíu í morgun, átta að kvöldi að staðartíma í Ástralíu. Assange faðmaði föður sinn og eiginkonu sína Stellu Assange við komuna til Ástralíu og smellti á hana rembingskossi.

Þetta var fallegt augnablik að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem var framsögumaður skýrslu hjá Evrópuráðsþinginu um fangelsun Julian Assange og kælandi áhrifa þess á mannréttindi í Evrópu.  

„Þetta er endir á fjórtán ára baráttu Julian Assange fyrir frelsi sínu fyrir það eitt að hafa upplýst okkur um stríðsglæpi og mikla leyndarhyggju í kringum fjöldann allan af mannsdrápum í stríðum sem að við áttum aðild að á Íslandi . En það er á sama tíma stórt umhugsunarefni að hann hafi þurft að játa á sig brot á njósnalögum Bandaríkjanna fyrir það eitt að birta þessar upplýsingar ,” segir Þórhildur Sunna.

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, hélt blaðamannafund strax eftir komu Assange til landsins. Þar þakkaði hann Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir aðstoðina við að leysa úr málinu, sem hefur reynt á diplómatísk samskipti ríkjanna. Albanese átti samtal við Assange strax við komuna til landsins. Wikileaks boðaði til blaðamannafundar sem hófst á tólfta tímanum í dag. Þar kom fram í máli lögfræðinga Assange, að hann hafi þakkað forsætisráðherranum fyrir að bjarga lífi sínu. Þá var Áströlskum stjórnvöldum hrósað fyrir baráttu sína í þágu Assange, jafnvel þótt það hafi kallað á erfið samtöl við vinaþjóð í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×