Heimakonur í Víkingi lentu í tvígang undir í fyrri hálfleik en náðu að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik. Selma Dögg vill meina að dugnaður og vinnusemi liðsins í sumar skilaði sigrinum í kvöld.
„Við höfum verið að byggja upp okkar leik seinustu leiki og ég held að það hafi bara verið karakter í dag, því þetta var svona frekar jafnt og hefði svo sem geta fallið báðu megin. En baráttan og liðsheildin sem við höfum verið að byggja upp skóp þennan sigur.“
John Andrews, þjálfari Víkings, hafði fulla trú á sínu liði í dag að sögn Selmu Daggar. Þau skilaboð skinu í gegn í hálfleiksræðu hans.
„John hefur alltaf svo mikla trú á okkur, þannig að hann segir við okkur að við séum að fara að skora fleiri mörk, en auðvitað þarf að vinna fyrir þeim. Þannig að við samstilltum okkur og settum okkur ný markmið og líka hvernig við ætluðum að verjast þeim inn á miðjunni því þær voru komnar með fjóra þar á móti okkur þrem. Við settum aðeins upp nýtt leikplan og við þurftum að setja í næsta gír.“
Víkingsliðið skoraði tvö mörk með aðeins tveggja mínútu millibili í síðari hálfleik sem skilaði að lokum þrem stigum í hús. Selma Dögg skoraði sigurmarkið eftir fyrirgjöf Emmu Steinsen og misheppnaða hreinsun varnarmanna Stjörnunnar.
„Þarna stóð ekkert annað til boða en að bæta bara við öðru marki og við erum búnar að vera æfa þessar fyrirgjafir bara mjög mikið, þegar Emma kemur upp kantinn og leggi hann fyrir. Svo var það bara barátta í mér að bæta upp fyrir hitt færið sem ég klúðraði í fyrri hálfleik. Þetta var kannski smá tilviljun að þetta hafi gerst með svona stuttu millibili, en bara geggjað,“ sagði Selma Dögg að lokum.