Erlent

Fær­eysku og græn­lensku bætt við Google Translate

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Stefnt er á að bjóða upp á sjálfvirkar þýðingar á og af þúsund mest töluðu málum heims.
Stefnt er á að bjóða upp á sjálfvirkar þýðingar á og af þúsund mest töluðu málum heims. Getty/Jakub Porzycki

Bráðum verður hægt að nota þýðingarvél Google til að þýða á og úr málum nágrannaþjóða okkar. Færeysku og grænlensku verður bætt við þýðingarvélina á næstunni ásamt 108 öðrum málum um allan heim, allt frá fámennum málsvæðum eins og Færeyjum og til fjölmennari mála eins og kantónsku.

Uppfærslan er sú stærsta í sögu þessarar mest notuðu þýðingarvélar heims en íslensku var bætt við vélina árið 2009. Henni hefur þó farið mikið fram frá því herrans ári eins og sjá má á frétt Vísis um uppfærsluna.

„Internet risastór Google tilkynnt mánudagur það var að bæta við níu fleiri tungumálum til Google Translate, sjálfvirk þýðing program," var það sem þýðingarvélin spýtti út þegar hún var beðin um að þýða fyrstu setningu fréttatilkynningarinnar yfir á íslensku en í dag yrði textinn talsvert skiljanlegri.

Þessi stærsta uppfærsla í sögu þýðingarvélar Google var möguleg þökk sé gervigreindar. PaLM 2-mállíkanið gerði Google þetta kleift.

Uppfærslan kemur einnig líka til með að styðja við mál í útrýmingarhættu sem annars er takmarkað aðgengi að upplýsingum um. Meðal mála sem bætt verður við þýðingarvélina eru manska, keltneskt mál sem var vakið upp frá dauðu á þessari öld og er nú töluð af nokkrum þúsundum manna á eyjunni Mön í Írlandshafi.

Í fréttatilkynningu frá Google kemur fram að við gerð uppfærslunnar hafi verið lögð áhersla á að nota gögn frá algengustu mállýskum hvers máls fyrir sig til að hámarka notagildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×