Innlent

Sigldu um allan Breiða­fjörð vegna lítils báts með bilað stýri

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í dag þurfti að fara í tvö útköll vegna lítilla fiskibáta.
Í dag þurfti að fara í tvö útköll vegna lítilla fiskibáta. Slysavarnafélagið Landsbjörg

Tvö björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kölluð út í dag til að aðstoða fiskibáta í vandræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Vörður II var kallaður út rétt upp úr klukkan sex í morgun vegna lítils fiskibáts sem var í vélarvandræðum. Báturinn var staddur um fimm sjómílum norður af Bjargtöngum.

Taug frá Verði var komin í fiskibátinn korter í átta í morgun og þá var haldið til Patreksfjarðar. Þangað kom Vörður með bátinn til hafnar klukkan ellefu.

Mynd frá vettvangi í dag.Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarskipið Björg var kallað út vegna lítils fiskibáts klukkan hálf ellefu í morgun. Báturinn var staddur undan Rauðasandi með bilað stýri. Fram kemur að bátinn hafi tekið hægt undan norðanáttinni, en annars hafi engin hætta verið á ferðum.

Um tvöleytið var Björg komin að bátnum eftir siglingu um allan Breiðafjörð. Þegar Landsbjörg sendi tilkynningu á fjölmiðla var báturinn í togi og stefnan sett á Grundarfjörð þaðan sem fiskibáturinn er gerður út.

Búist er við því að þau komi til hafnar í Grundarfirði um sjöleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×